Kennarar þakka bæjaryfirvöldum
Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær las fulltrúi kennara yfirlýsingu frá kennurum í öllum grunnskólum bæjarins. Þar var komið á framfæri þökkum fyrir þann skilning og virðingu sem bæjaryfirvöld hafi sýnt kennurum í yfirstandandi verkfalli.
Þrátt fyrir að kennarar og bæjaryfirvöld séu sitt hvoru megin við samningaborðið þessa stundina eru aðilarnir engu að síður samherjar sem eigi með sér sömu markmiðin, að efla og þróa grunnskólastarf bæjarins.
Þar sagði einnig að Reykjanesbær hafi sýnt það í verki, að metnaður í skólamálum sé mikill og var það helsta krafa kennara að metnaður bæjarfélagsins skili sér á samningaborðið. Bærinn þyrfti að nýta sér sterka stöðu sína sem fyrirmyndar skólabær til að hvetja önnur bæjarfélög til slíks hins sama.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, þakkaði kennurum vinsemdina og vonaðist til að farið væri að rofa til í samningamálum.
VF-mynd/Þorgils Jónsson: Kennarar á bæjarstjórnarfundi