Kemur ríkisstjórn með pening í Helguvík fyrir þinglok?
Bæjarfulltrúar þjörkuðu um málið í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær.
Tvær bókanir voru lagðar fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær um það hvort frumvarp um fjárhagslega aðkomu ríkisins að Helguvíkurhöfn náist í gegn á þessu Alþingi eða ekki.
Eysteinn Eyjólfsson, Samfylkingu sagði það fagnaðarefni að um frumvarp um fjárframlag til Helguvíkur líkt og samþykkt hefur verið um málefni Bakka í Norðurþingi, væri á lokastigi þó ekki væri víst að það kláraðist á þessu þingi. Árni Sigfússon sagði það sérstakt ef það kláraðist ekki. Loforð hefðu verið gefin um annað.
Nokkrar umræður urðu um málið en hér að neðan má sjá bókanir Samfylkingarinnar annars vegar og hins vegar frá Sjálfstæðisflokki og fulltrúa Framsóknar:
„Við fögnum því að Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur hafið viðræður við Reykjanesbæ um málefni Helguvíkurhafnar og fjárframlag ríkisins til uppbyggingar þar.
Suðurnesjamenn hafa í næstum áratug sóst eftir fjárhagslegum stuðningi við Helguvíkurhöfn, óskuðu eftir aðkomu ríkisins árin 2006 og 2009 en ekki haft árangur sem erfiði, fyrr en nú.
Tilkoma vinnuhóps sem Oddný G Harðardóttir, þáverandi fjármála- og iðnaðarráðherra, setti af stað vorið 2012 með það verkefni að vinna að undirbúningi aðkomu ríkisins að hafnargerð í Helguvík og að Bakka markaði tímamót í baráttunni fyrir því að ríkið taki þátt uppbyggingu hafnarinnar í Helguvík.
Vandaður undirbúningur, þrotlaus vinna þingmanna Samfylkingarinnar og skýrar yfirlýsingar Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, og fjármála- og efnahagsráðherra um að jafnræði skuli ríkja milli iðnaðarsvæða og landsvæða tryggja áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík, mikilvægu verkefni fyrir Suðurnesjamenn alla.“
Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfson.
Undirritaðir bæjarfulltrúar minna á að ítrekað hefur komið fram í máli forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að sambærilegt frumvarp verði lagt fram um Helguvík og gert er um Bakka. Minnt er á að nú eru örfáir dagar til þingloka. Samkvæmt yfirliti þingfundar Alþingis í dag þar sem 40 mál eru á dagskrá, þ.á.m. Kísilver í landi Bakka(29) og Uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka (30), sést hvergi til frumvarpsins um Helguvík.
Í frumvörpum um Bakka er verið að lögsetja þjálfunarstyrki, styrki til vegagerðar, lóðaframkvæmda og stuðning við hafnarframkvæmdir.
Á viðræðufundi með fjármálaráðherra var óskað eftir að forsvarsmenn bæjarins hlutuðust til um að lögð yrði fram umsögn væntanlegs Kísilvers vegna þjálfunarstyrks, sem hefur verið gert. Undirritaðir bæjarfulltrúar treysta því enn að frumvarpið verði lagt fram af ríkisstjórninni."
Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Gunnar Þórarinnson, Magnea Guðmundsdóttir, Björk Þorsteinsdóttir, Einar Þ. Magnússon, Baldur Þ. Guðmundsson og Kristinn Þ. Jakobsson.
Málefni Helguvíkurhafnar voru mál málanna á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær.