Keilisfólk eftirsóttir starfskraftar hjá flugfélögum
Kristjana Henný Axelsdóttir hefur verið ráðin nýr þjálfunarstjóri bóklegrar deildar Flugakademíu Keilis og tekur hún við starfinu af Írisi Erlu Thorarensen sem hefur verið ráðin til Icelandair. Einnig hafa Guðleifur Árnason, Gunnar Thorarensen og Michael Dencker Lauritzen verið ráðnir til kennslu við skólann. Kemur það til bæði vegna aukinna umsvifa í flugkennslu og sökum þess að fjöldi kennara og starfsmanna skólans hafa undanfarið verið ráðnir til starfa við flugfélög bæði hérlendis og erlendis. Þá hafa einnig fjölmargir útskrifaðir nemendur úr atvinnuflugmannsnámi Keilis verið ráðnir til starfa sem flugmenn á undanförnum misserum.
Samkvæmt Tómasi Beck, skólastjóra Flugakademíu Keilis er erfitt að sjá á eftir svona mörgum góðum starfsmönnum, en engu að síður ánægjulegt að svona margir aðilar sem tengjast skólanum hafi fengið draumastarfið sem atvinnuflugmenn. Það sé staðfesting á því að þeir aðilar sem leggja stund á flugnám og starfa hjá Keili séu eftirsóknarverðir starfskraftar í flugheiminum. Við óskum þeim því góðs gengis í framtíðinni og bjóðum nýja starfsmenn velkomna.
Á síðasta ári voru 4.250 skráðir flugtímar hjá Flugakademíu Keilis og eru líkur á að sá tímafjöldi verði enn meiri á þessu ári, enda mikil ásókn í flugnám hjá Keili bæði meðal innlendra og erlendra nemenda. Þess má geta að fullt er í atvinnuflugmannsnám við skólann á vorönn 2014.