Keilir útskrifar 33 flugfreyjur úr námi
Flugakademía Keilis útskrifaði sl. föstudag 33 flugfreyjur frá skólanum. Þetta eru fyrstu flugfreyjurnar sem skólinn útskrifar en námið hófst sl. haust. Um er að ræða svonefnt grunnnám en einnig verklega þjálfun og tegundaþjálfun.
Þetta er fyrsti hópurinn sem lýkur slíku námi innan íslenska skólakerfisins. Námið allt var skipulagt í samráði við helstu flugfélög á Íslandi og hefur verið m.a. viðurkennt af Icelandair. Þar með má segja að nám flugfreyja/þjóna sé orðið hluti af íslensku skólakerfi.
Þó staða heimsmála sé ekki björt um þessar mundir þá má segja að ferðabransinn sé alltaf sá fyrsti til að rétta úr kútnum. Á samdráttarskeiði er einmitt góður tími til að afla sér menntunar og vera því tilbúin þegar úr rætist. Margt bendir til að nokkrar úr hinum nýja hópi flugfreyja muni strax í sumar fá vinnu, segir í tilkynningu.
Við athöfnina, sem haldin var í Top of the Rock, fengu flugfreyjurnar nýju prófskirteini sín afhent, verðlaun veitt fyrir góðan námsárangur og ávörp haldin.