Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keilir tekur að sér endurmenntun atvinnubílstjóra
Mánudagur 31. október 2016 kl. 15:21

Keilir tekur að sér endurmenntun atvinnubílstjóra

Nú er komið að því að stærstur hluti atvinnubílstjóra á landinu þarf að sækja sér endurmenntun til að halda réttindum sínum. Keilir hefur fengið viðurkenningu Samgöngustofu til að bjóða upp á endurmenntun bílstjóra til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni og býður upp á kjarnanámskeið frá og með haustinu 2016. Fyrsta námskeiðið á vegum Keilis var haldið um miðjan október á Höfn í Hornafirði, við góðar undirtektir heimamanna þar sem 22 atvinnubílstjórar áttu þar saman góðan laugardag undir stjórn kennara frá Keili.

Mikill áhugi er meðal atvinnubílstjóra að sækja endurmenntun í heimabyggð og verður fyrsta námskeiðið á Reykjanesinu haldið í Keili á Ásbrú í nóvember. Námskeiðin í Keili byggja á virkri þátttöku nemenda og Keilir hefur látið framleiða vandað kennsluefni með sérfræðingum í hverju viðfangsefni. Námskeiðunum stýra kennarar sem hafa góða reynslu af því að vinna með fullorðnum námsmönnum og draga fram sérþekkingu þátttakenda á efninu.

Reglugerðin sem unnið er eftir er nr. 628 frá árinu 2015 og þar kemur fram að atvinnubílstjórar (með ökuréttindi í flokkum C1, C, D1 og D) verða að sækja endurmenntun á fimm ára fresti. Skylda til endurmenntunar nær til allra þeirra sem halda réttindum til að aka bifreiðum í atvinnuskyni en þeir bílstjórar sem aka aðeins í eigin þágu og eru ekki í flutningum gegn gjaldi þurfa ekki að sækja sér endurmenntun frekar en þeir vilja. Í reglugerðinni kemur fram að allir atvinnubílstjórar þurfa að hafa lokið 5 endurmenntunar námskeiðum fyrir 10. september 2018.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á heimasíðu Keilis www.keilir.net/namskeid eða í síma 578 4079.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024