Keilir: Skráning nemenda hefst eftir helgi
Nýtt hlutafélag, Keilir, Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, var stofnað á Keflavíkurflugvelli í dag. Heildarhlutafé félagsins er rúmar 300 milljónir króna en meðal hluthafa eru Háskóli Íslands og lykilfyrirtæki í útrás íslensks atvinnulífs erlendis, ásamt fyrirtækjum og félögum á Suðurnesjum. Um er að ræða stærstu fjárfestingu einkaaðila í íslensku menntakerfi frá upphafi.
Í tilkynningu frá Keili segir að fyrirtækinu sé ætlað að byggja upp háskólasamfélag í gömlu herstöðinni og leiða þar saman fyrirtæki og háskóla, þekkingu og fjármagn, hvoru tveggja til nýsköpunar og útrásar í íslenskum menntamálum.
Enskt heiti félagsins er Keilir, Atlantic Center of Excellence. Það vísar til stöðu Íslands í alþjóðavæddum heimi og þess markmiðs félagsins að byggja upp þekkingu, kennslu og rannsóknir á háskólastigi í alþjóðlegu samhengi. Samkvæmt samstarfssamningi félagsins og Háskóla Íslands, sem undirritaður verður við athöfnina, munu aðilar sameiginlega byggja upp alþjóðlegt háskólanám á Keflavíkurflugvelli í þeim tilgangi að laða til Íslands erlenda kennara og háskólanema. Jafnframt munu Keilir og Háskóli Íslands standa sameiginlega að þróun háskólanáms og kennslu, sérstaklega á sviðum orkuvísinda og umhverfismála, jarðvísinda, sjálfbærrar þróunar, verkfræði, ferðamála, lífríkis hafsins, norðurslóðarrannsókna, samgöngumála, alþjóða- og öryggismála.
Þegar hefur þróunarhópur hafið störf á sviði orkuvísinda- og umhverfismála með aðild helstu rannsóknarstofnana landsins á því sviði, auk lykilfyrirtækja á sviði orkumála. Formaður þess þróunarhóps er einn virtasti vísindamaður Íslendinga á sviði orkurannsókna, dr. Þorsteinn Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands.
Háskólanám á vegum félagsins verður vottað af Háskóla Íslands samkvæmt samstarfssamningnum í samræmi við gæðakröfur HÍ.
Fyrsta verkefni Keilis, Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs verður stofnsetning Frumgreinadeildar sem hefja mun starfsemi strax næsta haust. Nám við deildina er þróað í samstarfi við HÍ og í samræmi við inntökukröfur hans.
Námið verður auglýst í næstu viku en námsskrá hennar miðar að því að undirbúa fólk eldra en 24 ára undir háskólanám með 9-12 mánaða fornámi. Deildin á að skapa þeim sem ekki hafa stúdentspróf tækifæri til háskólanáms.
Einnig stefnir félagið að því að hefja næsta haust kennslu við nýjan starfsgreinatengdan fagskóla (Polytechnic). Fyrsta verkefni hans verður stofnun Flugakademíu í samstarfi við fyrirtæki í flugstarfsemi og aðra hagsmunaaðila, en þar verður sinnt kennslu í allri flugtengdri starfsemi svo sem flugmennsku, flugþjónustu, flugumferðarstjórn og flugvirkjun. Stofnun starfsgreinatengds fagskóla er í samræmi við tillögur starfsnámsnefndar Menntamálaráðuneytis frá síðasta sumri.
Runólfur Ágústsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Keilis, en formaður stjórnar félagsins er Árni Sigfússon.
VF-mynd/elg: Þrír ráðherrar voru við athöfnina, auk forseta Íslands sem opinberaði merki og nafn skólans