Keilir semur við Hópferðir Sævars
Breytingar á rútuferðum á milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar.
„Keilir sem skóli hefur ekki lengur aðgang í ferðir sem Háskólavellir eru að greiða fyrir sína leigjendur. Þess vegna þurfti skólinn að finna leið til að koma nemendum sínum og starfsfólki hingað. Þetta snýst ekki um þá sem eru leigjendur á Ásbrú og stunda nám í skóla á höfuðborgarsvæðinu. Þetta snýst um að við höfum samið við Hópferðir Sævars um að flytja fólk til og frá skóla,“ segir Harpa Sævarsdóttir, fjármálastjóri Keilis, vegna misskilnings sem hefur gætt í kjölfar tilkynningar sem birt var á vefsíðu Keilis.
Eins og fram kemur í tilkynningunni fá nemendur Keilis frítt í rútu á vegum Hópferða Sævars sem gengur milli Ásbrúar og höfuðborgarsvæðisins. Að auki er frítt í strætisvagna í Reykjanesbæ sem gengur samkvæmt áætlun um öll hverfi bæjarins. Breytingin á því einungis við um nemendur og starfsfólk skólans.
Harpa segir einhverjar breytingar standa til á rútuferðum á milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar sem hún sé ekki alveg með á hreinu. Felldar hafi verið niður aukaferðir í sumar sem Háskólavellir kostuðu. Víkurfréttir höfðu samband við Ingva Jónasson, framkvæmdastjóra Klasa ehf, móðurfyrirtækis Háskólavalla, sem staðfesti þetta. „Það er unnið að meiri breytingum er varðar rútuferðir en ekkert hefur verið ákveðið eða staðfest í því sambandi,“ segir Ingvar.