Keilir fær 50 milljónir króna frá ríkinu
Keilir hefur fengið 50 milljónir króna frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til reksturs skólans á þessu ári. Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, segir þetta vera mikinn gleðidag.
Með framlagi ráðuneytisins hefur Keilir loks hlotið viðurkenningu sem skóli og orðinn jafningi annarra menntastofnana. Hingað til hafa fjárframlög til Keilis verið í formi fjárveitinga til að bregðast við niðurskurði í þorskveiðum.
„Okkur munar hressilega um þessar 50 milljónir og látum þær duga okkur,“ sagði Hjálmar Árnason í samtali við Víkurfréttir nú áðan eftir að ljóst var að Keilir fái þetta framlag frá ráðuneytinu. Hjálmar sagði þetta einnig vera góða afmælisgjöf til Keilis, sem fagnar 4 ára afmæli á laugardag. Auk 50 milljóna króna fjárveitingar nú hefur verið boðaður þjónustusamningur milli ráðuneytisins og Keilis. Með slíkum samningi mun Keilis starfa á jafnréttisgrunni á við aðra skóla í landinu.