Keilir auglýsir ekki í miðlum Sýnar vegna ummæla
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hefur ákveðið að auglýsa ekki í fjölmiðlum Sýnar næstu misserin vegna ummæla um holdafar í útvarpsþættinum Súper á Bylgjunni. Ummælin sem féllu í úvarpsþættinum síðasta föstudag komu frá Sigríði Lund Hermannsdóttur, Siggu Lund, og voru um Valdimar Guðmundsson, tónlistarmann.
Tilkynning Keilis:
„Í ljósi nýbirtra upplýsinga er varða líkamssmánun og skeytingarleysi starfsmanna gagnvart umræðunni hefur markaðssvið Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs tekið þá ákvörðun að veita auglýsingafé sínu í aðra átt en að miðlum Sýnar næstu misserin.
Garðurinn vex þar sem þú vökvar hann. Lítilsvirðing og smánun vegna holdafars er samfélagsmein og sorglegt að sjá hana koma frá fagaðilum í heilsurækt. Forvarnir, íhlutanir, rannsóknir og breyttur hugsunarháttur eru umtalsvert skilvirkari leiðir til þess að skila jákvæðum niðurstöðum í vegferð að almennt bættu heilsufari en að smætta þá sem falla ekki í ákveðið útlitslegt form.
Menntun er sjálfsstyrking og er hún gífurlega mikilvægur þáttur í öllu okkar starfi og hana viljum við efla í hvívetna. Siðareglur Keilis kveða á um að við komum í veg fyrir að í starfi okkar viðgangist hvers kyns óréttlæti. Því kjósum við að leita á önnur, jákvæðari, mið með fjármuni okkar og lýsum yfir einlægri von um að málsaðilar komi fram við alla líkama af aukinni virðingu í framtíðinni.“