Keflvískur ljósmyndari með gosmynd á vef BBC
Keflvíski ljósmyndarinn Óli Haukur Mýrdal á magnaða mynd af eldgosinu í Eyjafjallajökli á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Myndin er af eldingum í öskustróknum sem leggur upp frá eldstöðinni og var tekin um nótt.
Óli Haukur hefur farið þrjár ferðir að gosinu. Tvær þeirra voru að gosinu á Fimmvörðuhálsi og svo einu sinni í nágrenni gossins á jöklinum sjálfum.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Óli hafa sent nokkrar myndir til erlendra fjölmiðla og BBC hafi svarað um hæl og m.a. birt myndina sem sést hér að ofan með umfjöllun um gosið.