Keflvískt Kolaport í 88 húsinu
„Hugmyndin með þessu er að búa til eitthvað skemmtilegt í 88 húsinu fyrir fólk á aldrinum 16 til 25 ára,“ segir Aron Ingi Valtýsson, en hann og kærasta hans, Kristrún Björgvinsdóttir, standa fyrir fatamarkaði í 88 húsinu næstkomandi laugardag.
„Við vorum að fara yfir fataskápana hjá okkur og vorum með fullt af fötum sem við notuðum ekki og ætluðum að fara í Kolaportið og selja þau. En þá datt mér í hug að búa til einhvern grundvöll fyrir ungt fólk á svæðinu, þar sem ekkert svona er í okkar bæjarfélagi,“ segir Aron í samtali við Víkurfréttir. 88 húsið, sem er ungmennahús fyrir fólk á aldrinum 16 til 25 ára, tók vel í hugmyndina.
Enn er laust pláss fyrir þrjá aðila, sem hafa áhuga á því að selja föt á staðnum, en hægt er að finna nánari upplýsingar um fatamarkaðinn hér. Ef vel gengur næstkomandi laugardag er, að sögn Arons, aldrei að vita nema viðburðurinn verði mánaðarlegur.