Keflvískir kirkjubekkir í Kópavogi
Gömlu kirkjubekkirnir úr Keflavíkurkirkju prýða nú Lindakirkju í Kópavogi. Þar ræður húsum Keflvíkingurinn séra Guðmundur Karl Brynjarsson. Söfnuðurinn er tíu ára gamall og kirkjan hefur verið í byggingu frá árinu 2008.
Guðmundur Karl vissi af gömlu bekkjunum í geymslu eftir að kirkjuskipið í Keflavík fór í gegnum mikla endurnýjun á síðasta ári. Hann setti sig því í samband við Keflavíkursókn og þar var vel tekið í beiðni safnaðarins í Lindakirkju að fá að nýta bekkina. Guðmundur Karl segir söfnuðinn ekki vera með mikla peninga umleikis og því séu kirkjubekkirnir úr Keflavík framtíðarlausn í Lindakirkju.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Guðmundur Karl að það væri sannarlega keflvískur andi sem fylgdi bekkjunum góðu. Að sjálfsögðu eru svo allir velkomnir í guðsþjónustur í Lindakirkju og geta þar fundið fyrir þessum keflvísku áhrifum.