Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keflvíska söngkonan Sesselja vann  söngkeppni framhaldsskólanna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 21. apríl 2023 kl. 06:52

Keflvíska söngkonan Sesselja vann söngkeppni framhaldsskólanna

„Keppnin var rosalega sterk, ég átti alls ekki von á að vinna, hélt ég kæmist ekki einu sinni í topp þrjá,“ segir hin keflvíska Sesselja Ósk Stefánsdóttir en hún gerði sér lítið fyrir á dögunum og vann söngkeppni framhaldsskólanna, þó ekki fyrir FS heldur FG í Garðabæ.

Sesselja byrjaði ung að syngja. „Ég held ég hafi nánast byrjað að syngja áður en ég byrjaði að tala. Mamma sem er góð söngkona, söng stanslaust fyrir mig svo ég var mjög ung byrjuð að syngja. Ég tók þátt í öllum sýningum í grunnskólanum og í gegnum alla barnsæskuna og unglingsárin, söng ég stanslaust. Ég hef alltaf haft áhuga á leiklist en það er ekki í boði að stunda það nám í FS svo hugur minn leitaði annað þegar kom að því að velja framhaldsskóla. Ég fór á opið hús hjá Fjölbrautarskóla Garðabæjar en þar er leiklistarbraut í boði, og einfaldlega heillaðist. Mig langaði líka til að prófa eitthvað nýtt og kynnast nýju fólki.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurinn kom á óvart

FG hélt forkeppni en í sumum skólum er það ekki í boði, bara einhver söngelskur valinn til að taka þátt fyrir hönd síns skóla. „Forkeppnin okkar var haldin í hátíðarsalnum okkar, Urðarbrunni en þar þurftum við að notast við undirleik af síma. Við vorum u.þ.b. tíu sem kepptum og var um mjög jafna keppni að ræða, ég var alls ekki viss um að ég myndi vinna og þar með tryggja mér keppnisrétt á úrslitakvöldinu. Úrslitakvöldið var svo haldið í Hinu húsinu og þar var hin frábæra hljómsveit Stuðlabandið, sem spilaði undir. Ég söng lagið Turn me on með Norah Jones en ég kann best að meta þannig tónlist. Í þessari keppni eru þátttakendur frá langflestum framhaldsskólum landsins og margir söngvaranna voru rosalega góðir. Minn flutningur gekk fullkomlega upp en ég átti alls ekki von á að vinna, hélt ég kæmist ekki einu sinni í topp þrjá. Það sést vel á upptökunni hversu hissa ég var þegar úrslitin voru tilkynnt, ég fékk hálfgert sjokk. Mér var í raun sama hvort ég kæmist á pall eða ekki, það myndaðist svo góður andi á meðal okkar keppendanna og við vorum eins og bestu vinir, óskuðum hvort öðru bara góðs gengis. Hvað tekur við í söngnum kemur bara í ljós, ég mun pottþétt halda áfram að syngja. Því miður kann ég ekki á neitt hljóðfæri en það væri gaman að geta spilað á eitthvað, sérstaklega ef maður ætlar að reyna semja tónlist. Ég hef lengi haft áhuga á píanói en held ég geti ekki lært á það. Ég hef verið hvött til að læra á gítar, hver veit nema ég eigi eftir að læra á hann en bróðir minn spilar á gítar,“ sagði Sissa Ósk eins og hún kallar sig.