Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keflavíkurverktakar fá viðurkenningu vegna öryggis á vinnustöðum
Þriðjudagur 19. október 2004 kl. 07:24

Keflavíkurverktakar fá viðurkenningu vegna öryggis á vinnustöðum

Keflavíkurverktakar hlutu á dögunum viðurkenningu fyrir góðar öryggisráðstafanir á sínum vinnustöðum. Vinnueftirlitið, Samtök iðnaðarins, Vinnueftirlitið, Rafiðnaðarsambandið og Starfsgreinasambandið völdu Keflavíkurverktaka til að verða heiðursins aðnjótandi.

Viðurkenningin er í tengslum við Evrópsku vinnuverndarvikuna sem Evrópska vinnuverndarstofnunin í Bilbao stendur árlega fyrir. Markmiðið með vikunni, sem hófst í gær og stendur fram á föstudag, er að vekja athygli manna á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari.

Í ár beinist kastljósið að byggingarstarfsemi. Er þetta í fyrsta skipti sem vinnuverndarvikan er tileinkuð sérstakri atvinnugrein þar sem starfsemin er skoðuð allt frá hönnunarstigi byggingar.

Auk Keflavíkurverktaka fengu Ístak og Hannes Jónsson, viðurkenningu fyrir vel útfærðar öryggisráðstafanir á sérstökum vinnustöðum.
Mynd 1: Eyjólfur Sæmundsson hjá Vinnueftirliti Ríkisins veitir Kára Arngrímssyni, framkvæmdastjóra Keflavíkurverktaka, viðurkenninguna.

Mynd 2 talið frá vinstri: Eyjólfur, Hannes Jónsson framkvæmdastjóri, Kári og Guðmundur Þórðarson hjá Ístak.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024