Keflavíkurverktakar byggja framleiðsluhús við Bláa lónið
Bygging 1500m2 framleiðslu- og skrifstofuhúsnæðis á athafnasvæði Bláa Lónsins í Grindavík er að hefjast. Í nýja húsinu verður skrifstofuaðstaða auk lagers og framleiðslurýmis fyrir grunnhráefni í heilsuvörur fyrirtækisins þ.e. salt, kísil og þörunga. Verklok eru áætluð 1.febrúar á næsta ári og er heildarframkvæmdakostnaður áætlaður um 180 milljónir króna. Húsið verður samhliða annarri nýrri byggingu, húðlækningastöð fyrir psoriasis-sjúklinga. Keflavíkurverktakar sjá um báðar framkvæmdirnar.
Hartmann Kárason, fasteignastjóri Bláa Lónsins, sagði í samtali við Víkurfréttir að framundan væri mikill framkvæmdatími hjá fyrirtækinu. „Með þessari nýju byggingu er verið að koma allri framleiðsluaðstöðu í ákjósanlegt horf, en starfsemin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér núverandi aðstöðu.“ Hartmann bætir því við að áframhaldandi vöxtur sé í allri starfsemi Bláa Lónsins og hann útilokaði ekki enn frekari framkvæmdir á svæðinu á næstu misserum.
Hartmann Kárason, fasteignastjóri Bláa Lónsins, sagði í samtali við Víkurfréttir að framundan væri mikill framkvæmdatími hjá fyrirtækinu. „Með þessari nýju byggingu er verið að koma allri framleiðsluaðstöðu í ákjósanlegt horf, en starfsemin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér núverandi aðstöðu.“ Hartmann bætir því við að áframhaldandi vöxtur sé í allri starfsemi Bláa Lónsins og hann útilokaði ekki enn frekari framkvæmdir á svæðinu á næstu misserum.