Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 27. febrúar 2003 kl. 13:13

Keflavíkurverktakar boða launalækkanir

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hafa Keflavíkurverktakar boðið starfsmönnum sínum nýja vinnustaðasamninga sem hljóða upp á breytingar á launakjörum og vinnutíma en starfsmannasamningum var sagt upp 1. desember á síðasta ári. Í nýju samningunum er gert ráð fyrir að vinnutími aukist og laun breytast. Má sem dæmi um það nefna að tímagjald sveins eftir 7 ár í vinnu verður í dagvinnu kr. 1170 og í yfirvinnu kr. 1868.Á starfsmannafundi sem Keflavíkurverktakar héldu í gær voru starfsmönnum fyrirtækisins kynntir þessir samningar og greidd voru atkvæði með eða á móti samningum. Um 90 manns mættu á fundinn og var mikill meirihluti þeirra sem neitaði þessu tilboði Keflavíkurverktaka. Tveir samþykktu samningana, sex voru ógildir og 77 neituðu. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta var þetta tilboð fyrirtækisins ekki í samráði við samninganefnd sem hefur fundað með Keflavíkurverktökum frá 1. desember. „Það er mikil óánægja meðal starfsmanna Keflavíkurverktaka og finnst okkur að það hafi verið illa komið fram við okkur“, sagði einn starfsmaður Keflavíkurverktaka sem hafði samband við Víkurfréttir.
Í morgunsárið var starfsmönnum fyrirtækisins svo afhent bréf þar sem kemur fram að þessir samningar taki gildi 1. júní 2003 burt séð frá því hvað starfsmenn hafa um málið að segja.
Ekki hefur enn náðst í Bjarna Pálsson, stjórnarformaður fyrirtækisins en hann mun tjá sig um málið á næstu mínútum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024