Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keflavíkurflugvöllur undir samgönguráðuneyti um áramót
Föstudagur 21. desember 2007 kl. 16:20

Keflavíkurflugvöllur undir samgönguráðuneyti um áramót

Flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli og þjónusta í flugstöð Leifs Eiríkssonar flytjast um áramótin til samgönguráðuneytisins. Er það í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að öll flugstarfsemi skuli tilheyra samgönguráðuneyti en ábyrgð á varnarmálum mun áfram heyra undir utanríkisráðuneytið.

Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins en þar segir einnig að unnið sé að undirbúningi lagabreytinga og breytingum á öðrum sviðum sem tengjast þessum tilflutningi.

Kristján L. Möller samgönguráðherra kynnti sér af þessu tilefni starfsemi Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. og ræddi við lykilstjórnendur þar í gær. Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri og Elín Árnadóttir, forstjóri FLE, tóku á móti ráðherra og fylgdarliði en auk þess að kynna sér starfsemina í flugstöðinni var ráðherranum sýnd aðstaðan í flugstöðinni og á flugvallarsvæðinu.

Á fundi með fulltrúum FLE og Flugmálastjórnar kom fram að lagabreytingar miða að því að heimiluð verði sameining Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. og Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar í opinbert hlutafélag. Mun samgönguráðherra fara með hlutabréf ríkisins í félaginu.

Starfshópur skipaður fulltrúum nokkurra ráðuneyta hefur unnið að samningu lagafrumvarps undanfarna mánuði. Gert er ráð fyrir að afgreiða megi frumvarpið á vorþingi.

Mikil vinna er framundan við að sameina og samræma starfsemina á Keflavíkurflugvelli og segir samgönguráðherra að áhersla verði lögð á að sem minnst rask verði á starfseminni á þessum umbreytingartíma. 
Segir ráðherra margvísleg tækifæri felast í þessum breytingum til að efla starfsemina á Keflavíkurflugvelli. Markmiðið sé einnig að gera allan rekstur vallarins og þjónustunnar þar skilvirkan og hagkvæman enda sé flugvöllurinn í harðri alþjóðlegri samkeppni.

Af vef samgönguráðuneytis

Mynd: Oddgeir Karlsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024