Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 15. febrúar 2002 kl. 14:05

Keflavíkurflugvöllur miðpunktur áætlana hjá Canada West

Steinþór Jónsson, hótelstjóri og athafnamaður í Keflavík, er umboðsmaður á Íslandi fyrir nýtt flugfélag sem verið er að stofna á vesturströnd Kanada. Félagið, Canada West, stefnir að því að hefja flug frá vesturströnd Kanada og fljúga frá Vancouver, yfir Klettafjöllin um Calgary og Edmonton til borga í Evrópu með daglega viðkomu á Keflavíkurflugvelli.Steinþór hefur verið í sambandi við stofnendur Canada West í tvö ár og tekið þátt í strefnumótun fyrirtækisins. Meðal þess sem nýja flugfélagið gerir er að horfa á Ísland sem miðpunkt í öllum þeirra áætlunum. Síðustu daga hefur Steinþór verið í sambandi við stjórnvöld og þjónustuaðila hér á landi til að kanna grundvöll fyrir millilendingum Canada West hér á landi. Steinþór sagðist í samtali við Víkurfréttir í gær vera ræða við stjórnvöld um flugvallarskatt og afgreiðslugjöld við þjónustuaðila á Keflavíkurflugvelli. Það eru kostnaðarliðir sem þarf að semja um áður en flug getur hafist. Aðspurður um lendingargjöld, sagði Steinþór þau vera sanngjörn.
„Ég er afar stoltur af því að málið sé komið á þetta stig en það á margt eftir að gerast áður en Canada West fer að millilenda hér á landi og kaupa þjónustu,“ sagði Steinþór. Hann sagði svona flugrekstur skapa mikla atvinnu. Þar á Steinþór við störf í flugeldhúsi og við aðra þjónustu við vélarnar. Aðkoma flugfélags af þessari stærðargráðu hefur því mikið að segja fyrir Reykjanesbæ og svæðið í heild.
Sumaráætlun Canada West gerir ráð fyrir reglulegu leiguflugi frá Vancouver um Calgary og Edmonton til borga eins og Manchester, Glasgow og London á Bretlandseyjum. Einnig Düsseldorf í Þýskalandi og Amsterdam í Hollandi. Þá ætlar félagið einnig að fljúga á Varsjá í Póllandi og til Prag í Tékklandi. Millilent yrði í Keflavík í öllum þessum ferðum.
En geta Íslendingar flogið með Canada West? Forsenda þess er að flugfélagið fái svokölluð 5. stigs flugréttindi til að mega taka farþega frá Keflavík til Evrópu og frá Evrópu til Íslands og vestur um haf. Þá skiptir máli að flugfélagið þurfi ekki að greiða afgreiðslugjöld fyrir heilar vélar, heldur eingöngu fyrir þá farþega sem fara frá borði eða koma um borð í Keflavík.
Steinþór sagði Íslendinga einnig eiga erindi til Vancouver í Kanada. Það sé skemmtilegur áfangastaður og stutt í Klettafjöllin sem eru vinsæll skíðastaður. Frá Vancouver í Kanada er ekki nema tveggja tíma akstur til Seattle í Bandaríkjunum og tíu tíma akstur til Los Angeles.
Þess má geta í lokin geta að Steinþór Jónsson hefur áður komið á flugsamgöngum við Kanada en á árum 1996-1999 var Canada 3000 stærsti viðskiptavinur Keflavíkurflugvallar á eftir Flugleiðum. Hér er því aftur um mikla hagsmuni að ræða og vonandi að stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar standi saman til að millilendingar Canda West verði að veruleika. Takist það eru enn fleirri tækifæri til staðar fyrir Keflavíkurflugvöll fullyrðir Steinþór.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024