Keflavíkurflugvöllur í 4. sæti í alþjóðlegri þjónustukönnun
Keflavíkurflugvöllur er í fjórða sæti yfir þá evrópska flugvelli með 5-15 milljón farþega sem veittu bestu þjónustuna árið 2018. Þetta er niðurstaðan í Airport Service Quality (ASQ) könnun sem unnin er af Alþjóðasamtökum flugvalla (Airports Council International – ACI). Samtökin hafa nú kynnt verðlaun og niðurstöður í hverjum stærðarflokki flugvalla fyrir sig.
Þjónustukönnunin er framkvæmd á 346 helstu flugvöllum heims, þar af hjá 114 flugvöllum í Evrópu. Farþegar svara spurningum um gæði 33 þjónustuþátta auk þess sem spurt er um heildaránægju með flugvöll.. Niðurstöður eru birtar fyrir hvern ársfjórðung og síðan heildarárangur fyrir hvert ár um sig. Keflavíkurflugvöllur hefur jafnan verði í hópi bestu evrópsku flugvallanna frá því að hann tók fyrst þátt í könnuninni árið 2004. Keflavíkurflugvöllur hefur í þrígang verið í fyrsta sæti í sínum stærðarflokki, þ.e. árin 2009, 2011 og 2014.
Nú er Keflavíkurflugvöllur í hópi flugvalla með á bilinu 5 til 15 milljón farþega á ári, ásamt 35 öðrum flugvöllum, og uppfyllti öll skilyrði þjónustukönnunarinnar til að hljóta verðlaun. Keflavíkurflugvöllur mælist með 4,20 í einkunn að þessu sinni en mælt er frá einum og upp fimm.
Fyrir ofan Keflavíkurflugvöll eru flugvellirnir í Sotchi í Rússlandi, Porto í Portúgal og á Möltu. Fyrir neðan Keflavíkurflugvöll eru m.a. flugvellirnir í Björgvin í Noregi, Bristol og Newcastle á Englandi, Alicante á Spáni og Edinborg og Glasgow í Skotlandi.
„Við hjá Isavia erum afskaplega glöð að taka á móti þessari viðurkenningu. Þetta er viðurkenning fyrir þá miklu vinnu sem starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli og starfsfólk rekstraraðila þar hefur unnið,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Þessi hópur hefur lyft grettistaki og veitt ferðafólki á flugvellinum gríðarlega góða þjónsutu þrátt fyrir þrengsli í flugstöðinni vegna mikillar fjölgunar ferðamanna á síðustu árum. Ég óska öllu starfsfólki á Keflavíkurflugvelli til hamingju með þennan glæsilega árangur.“