Keflavíkurflugvöllur: Gert ráð fyrir að farþegafjöldi tvöfaldist á næstu 10 árum
Gert er ráð fyrir að farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll muni tvöfaldast á næstu 10 árum. Farþegar sem fara um völlinn verða 3,1 milljón árið 2015 en þeir voru 1,6 milljón á síðasta ári. Starfsfólki við flugstöðina mun fjölga um 50% á næstu árum en í dag er fjöldi starfsfólks við stöðina og aðila tengdri henni á svæðinu um 1800 manns. Flugstöðin er langstærsti og fjölmennasti vinnustaður á Suðurnesjum og ljóst að fjölmargir Suðurnesjamenn munu á næstu árum hefja störf við ýmis fyrirtæki tengd flugstöðinni.
Víkurfréttir leituðu til tveggja nemenda af flugþjónustubrautinni og spurðu nokkurra spurninga um námið.
Nafn: Rakel Guðnadóttir
Heimilisfang: Suðurvellir 20, Reykjanesbæ
Af hverju valdirðu að fara í nám á flugþjónustubraut?
Ég er kláraði stúdentspróf af málabraut í FS um síðustu jól. Ég sá brautina auglýsta síðast haust. Þegar ég skoðaði málið sá ég að þetta er stutt og hagnýtt nám sem gefur manni starfsréttindi og möguleika á vinnu í farþegaþjónustu við flugfarþega. Mér fannst það spennandi tækifæri og ákvað að slá til.
Finnst þér mikilvægt að boðið sé upp á þetta nám á Suðurnesjum?
Já, vegna þess að flugvöllurinn er hér á Suðurnesjum og með náminu er líklegt að þjónustan verði ennþá betri. Gott fyrir fyrirtæki í flugstöðinni að fá starfsmenn sem eru frá Suðurnesjum.
Hvernig finnst þér námið?
Miklu skemmtilegra en annað nám sem ég hef stundað í heildina. Aldurshópurinn er breiður og það er mjög gaman því sjónarhornin og reynslan er misjöfn.
Stefnirðu á frekara nám í ferðaþjónustu?
Það getur vel verið. Ég hafði jafnvel hugsað mér að fara í annað ferðamálanám eða jafnvel ferðamálafræði í Háskólanum, hef annars ekki ákveðið það alveg, kemur bara í ljós.
Draumastarfið?
Skemmtilegt framtíðarstarf tengt flugþjónustu.
Nafn: Dagbjört Þórey Ævarsdóttir
Heimilisfang: Efstaleiti 32, Reykjanesbæ
Af hverju valdirðu að fara í nám á flugþjónustubraut?
Mig langaði að víkka sjóndeildarhringinn og gera eitthvað annað en að vera heimavinnandi húsmóðir. Hef einnig mikinn áhuga á flugþjónustu en ég starfaði fyrir 7 árum í Fríhöfninni.
Finnst þér mikilvægt að boðið sé upp á þetta nám á Suðurnesjum?
Já, það finnst mér. Við erum með Alþjóðaflugvöllinn hér og því ekki að bjóða upp á námið í FS.
Hvernig finnst þér námið?
Þetta er mjög skemmtilegt og fræðandi og það er mikið sem kemur fram sem er nýtt fyrir manni. Svo má ekki gleyma félagsandanum.
Stefnirðu á frekara nám í ferðaþjónustu?
Já það er aldrei að vita því alltaf getur maður bætt við sig smá fróðleik. Það er alltaf gaman að geta frætt fólk um land og þjóð.
Draumastarfið?
Að vinna við innritun og farþegaafgreiðslu í Flugstöðinni og jafnvel síðar að vera fararstjóri eða að vinna á ferðaskrifstofu.