Keflavíkurflugvöllur bestur í Evrópu
Keflavíkurflugvöllur varð í efsta sæti í þjónustu- og gæðakönnun farþega meðal flugvalla í Evrópu en samtökin „Airports council international“ og kalla sig „rödd“ flugvalla í heiminum standa fyrir þessari könnun sem fram fer á flugvöllum um allan heim.
Verðlaun eru veitt í flokkum eftir heimsálfum, stærð flugvalla og fleiri þáttum. Keflavíkurflugvöllur hefur lengi verið við toppinn í þessari þjónustu-könnun en aldrei verið í efsta sæti fyrr en nú. Í frétt á heimasíðu samtakanna ACI kemur fram að nýliðið ár var erfitt í flugheiminum. Vegna efnahagslægðar um allan heim hafi farþegatölur alls staðar lækkað og þannig hafi reynt á þjónustustigið á flugvöllum sem allir hafi þurft að herða sultarólina.
Forráðamenn Keflavíkurflugvallar munu ætla fagna þessu á morgun, fimmtudag, og afhenda öllum starfsmönnum í flugstöð Leifs Eiríkssonar verðlaunapening í tilefni árangursins. Þjónustustigið er reiknað út frá öllum þáttum í starfsemi flugvallarins, frá kaffibollanum yfir í farangursþjónustu. Þannig eiga allir starfsmenn þátt í þessum ánægjulega árangri.