Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keflavíkurflugvöllur aftur valinn bestur í Evrópu árið 2011
Miðvikudagur 15. febrúar 2012 kl. 16:48

Keflavíkurflugvöllur aftur valinn bestur í Evrópu árið 2011

Keflavíkurflugvöllur veitti besta þjónustu evrópskra flugvalla með undir 2 milljónum farþega á ári að mati þátttakenda í viðamikilli könnun alþjóðasamtaka flugvalla, Airports Council International. Flugvöllurinn fékk raunar flest heildarstig allra evrópskra flugvalla líkt og árið 2009 en taldist nú í nýjum flokki smærri flugvalla sem ekki koma til álita í fyrsta sæti allra flugvalla.

Þjónustukönnunin er framkvæmd á 186 helstu flugvöllum heims, þar af 54 í Evrópu og svara farþegar spurningum um gæði 36 þjónustuþátta. Niðurstöður eru birtar ársfjórðungslega og heildarárangur árlega. Keflavíkurflugvöllur hefur jafnan verið í efstu sætum evrópskra flugvalla frá því að hann hóf þátttöku í könnuninni árið 2004. Hann var valinn besti flugvöllur Evrópu árið 2009 og var í öðru sæti árið 2010 ásamt því að vera í þriðja sæti á heimsvísu árið 2004 í flokki flugvalla með undir fimm milljónir farþega á ári.

Keflavíkurflugvöllur skarar jafnan framúr í heildaránægju farþega, kurteisi og hjálpsemi starfsfólks, auðveldu tengiflugi, notalegu andrúmslofti, hreinlæti og biðtíma í öryggisleit. Einnig eru farþegar mjög ánægðir með skjóta afgreiðslu farangurs, aðgengi að farangurskerrum, bankaþjónustu og veitingastaði í flugstöðinni. Möltuflugvöllur var valinn besti evrópski flugvöllurinn með yfir 2 milljónir farþega en Incheonflugvöllur í Suður Kóreu bestur á heimsvísu.

„Við erum stolt af þessum glæsilega árangri sem staðfestir að starfsfólk Keflavíkurflugvallar er fagfólk á heimsmælikvarða. Þjónustukönnun ACI er mikilvægt verkfæri til þess að meta gæði einstakra þjónustuþátta og frammistöðu við að mæta þörfum viðskiptavina. Ég óska öllu starfsfólki á Keflavíkurflugvelli til hamingju með þennan glæsilega árangur“, segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia sem annast rekstur Keflavíkurflugvallar.

Þjónusta við flugfarþega á Keflavíkurflugvelli nær til allra flugvallarstarfsmanna. Fagmennska og samstillt átak þeirra tryggir að afgreiðsla verði ávallt með skjótum og öruggum hætti. Forráðamenn Keflavíkurflugvallar og rekstraraðila fagna þessum frábæra árangri og þakka starfsmönnum glæsilega frammistöðu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024