Keflavíkurflugvöllur á hættustig vegna leka í herflutningavél
Keflavíkurflugvöllur var settur á hættustig vegna lendingar bandarískrar herflutningavélar með bilaðan mótor.
Það var núna á þriðja tímanum sem viðbragðsaðilum var send tilkynning um að innan fárra mínútna myndi lenda á Keflavíkurflugvelli flugvél með átta manns innanborðs. Einn af fjórum mótorum vélarinnar var dauður, enda hafði orðið vart olíuleka frá honum.
Vélin lenti örugglega á flugvellinum er var fylgt af slökkviliðsbílum á flugvélarstæði á svokölluðu austursvæði Keflavíkurflugvallar. Þar verður olíulekinn kannaður nánar.
Ekki hafa fengist upplýsingar á hvaða ferðalagi vélin var.
Vélar sem þessar eru notaðar í hergagnaflutninga ýmiskonar.
Eins og sjá má á þessum myndum er dautt á einum hreyfli vélarinnar. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson