KEFLAVÍKURBÍTILLINN FÆR SÚLUVERÐLAUNIN
Menningar- safnaráð samþykkti á fundi sínum 26.október s.l. að veita Rúnari Júlíussyni tónlistarmanni menningarverðlaun Reykjanesbæjar 1999. Rúnar Júlíusson hefur um áratugabil verið einn vinsælasti tónlistarmaður Íslands. Bítlabærinn Keflavík fékk viðurnefni sitt fyrst og fremst vegna tónlistar Rúnars og fleiri góðra manna og kvenna. Hver man ekki eftir vinsælustu hljómsveit Íslands fyrr og síðar, Hljómum, en Rúnar var einmitt bassaleikari og söngvari þeirrar hljómsveitar. Það má því segja að hann sé vel að þessum verðlaunum kominn og mörgum finnst eflaust tími til kominn að Rúnar fái viðurkenningu fyrir störf sín í þágu tónlistar í Reykjanesbæ. Gárungarnir geta þó vafalaust gert sér mat úr þessum verðlaunum, því menningarverðlaun bæjarins heita nefnilega „Súlan”.