Keflavík er besti kosturinn – ef það á færa innanlandsflugið
Keflavík er besti kosturinn fyrir innanlandsflugið, fari það á annað borð úr Reykjavík. Þetta sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, á opnum fundi á veitingahúsinu Ránni í kvöld. Sturla sagði hins vegar að það væri mikilvægt að flugið væri áfram í Reykjavík og þar réðu mikilvæg flugrekstrar- og öryggisatriði. Ráðherra sagðist fús að skoða alla kosti um flugvöll á öðrum stað en í Vatnsmýrinni. Það væri hins vegar langt ferli og flutningur flugvallarins væri ekkert sem væri að gerast á morgun. Það væri stefna ríkisstjórnarinnar að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera miðstöð samgangna og unnið væri eftir þeim nótum í hans ráðuneyti. Ef innanlandsflugið ætti hins vegar að fara úr Reykjavík, þá væri Keflavík besti kosturinn.
Það var alþingismaðurinn Hjálmar Árnason sem boðaði til fundarins í kvöld og var salurinn á Ránni þéttskipaður. Hjálmar ræddi þær breytingar sem orðið hefðu á innanlandsflugi á síðustu árum. Stórbættar samgöngur milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar væru þáttur sem vinna með Suðurnesjamönnum í málinu. Hjálmar fagnaði því að fram væru að koma þverpólitísk samtök sem ætluðu að vinna að framgangi málsins og láta skoða möguleika á flutningi innanlandsflugsins og auknum samgöngubótum þar tengdum.
Fram eru komnar hugmyndir um svokallað Bessastaðahjáleið sem myndi tengja Vatnsmýrina um Álftanes og í Straumsvík með vegum, jarðgöngum og/eða brúarmannvirkjum. Í umræðum um Bessastaðahjáleið sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, að hún kostaði 23 milljarða króna og þeir fjármunir væru ekki hristir fram úr erminni. Hjálmar Árnason var hins vegar með tölur frá Gunnari I. Birgissyni, bæjarstjóra Kópavogs og verktaka sem áætlaði að mannvirkið myndi kosta 6-12 milljarða króna. Talsmenn Samtaka um innanlandsflugið til Keflavíkur sögðu hins vegar að Bessastaðahjáleiðin væri aðeins ein af mörgum hugmyndum sem væri kastað fram í málinu.
Mönnum var tíðrætt um tímann sem tekur að aka leiðina Keflavík/Reykjavík. Kom fram í máli frummælenda að um hálftíma akstur milli flugvallar og miðju höfuðborgarsvæðisins væri ásættanlegur tími. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, upplýsti að Vegagerðin væri að skoða möguleika á því að hækka hámarkshraða á Reykjanesbraut upp í 110 km/klst. þegar búið væri að tvöfalda hana. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, vildi ekki staðfesta þetta, og sagði undir lok fundarins að hann væri frekar að vinna í því að lækka umferðarhraða á landinu, enda væri víða ekið alltof hratt miðað við aðstæður.
Á fundinum voru kynnar bæði skipulagstillögur um áframhaldandi uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og sýndar framtíðarspár um nauðsynlegar framkvæmdir á og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en þar er starfsemi að vaxa um 20% á ári en gert er ráð fyrir að farþegar sem fara um Leifsstöð eftir tvo áratugi verði orðnir 4,5 milljónir talsins.
- Nánari fréttir af fundinum síðar í dag, föstudag.