Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

KEF tekið til starfa
Föstudagur 2. janúar 2009 kl. 17:30

KEF tekið til starfa





Keflavíkurflugvöllur ohf. tók við rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um áramótin en félagið var stofnað með lagaheimild 26. júní sl. til að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar. Félagið annast einnig flugleiðsöguþjónustu og þjónustu við flugrekendur, rekstur verslana með tollfrjálsar vörur og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar auk þess að sjá um hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála. Með stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. er stefnt að hagræðingu og skilvirkni í rekstri flugvallarins og flugstöðvarinnar og lagður grundvöllur að nýrri starfsemi og þjónustu á sviði flugs og viðskipta. Samgönguráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en forstjóri er Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur.
 
Keflavíkurflugvöllur er miðstöð alþjóðlegs millilandaflugs, búinn fullkomnum tækjum og þjónar öllum flugvélategundum. Þjónusta í flugstöðinni er framúrskarandi að mati alþjóðasamtaka flugvallarrekenda – Airports Council International – samkvæmt könnun sem samtökin gerðu meðal flugfarþega í mars 2008. Flugstöðin er rómuð fyrir þægilega staðsetningu í miðju Atlantshafi og lenti í fyrsta sæti fyrir þægindi við að skipta um flug sem og aðgengi að verslunum og bankaþjónustu, í þriðja sæti fyrir öryggi og var almennt valin fimmta besta flugstöð í heimi í flokki flugstöðva með færri en 5 milljónir farþega.
 
Starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf. skiptist í sex svið; fjármálasvið, flugvallarsvið, flugleiðsögusvið, flugverndarsvið, viðskiptasvið og rekstrarsvið. Öryggisverðir sem annast vopnaleit og öryggisgæslu í flugstöðinni munu heyra undir hið nýja félag. Réttindi og skyldur starfsmanna flytjast í samræmi við lög um aðilaskipti. Fríhöfnin ehf. er dótturfélag Keflavíkurflugvallar ohf. og sér um rekstur fríhafnarverslana í flugstöðinni. Starfsmenn félaganna eru 400 og áætluð velta á þessu ári er ríflega tíu milljarðar króna.
 
Félaginu ber að virða og standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar á sviði öryggis og varnarmála sem varða flugvallarsvæðið. Er utanríkisráðherra heimilt að beina fyrirmælum til félagsins um hagnýtingu flugvallarsvæðisins í þágu þeirra mála.
 
Stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. skipa Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Pétur J. Eiríksson.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón Gunnarsson stjórnarformaður KEF, Kristján Möller samgönguráðherra og Björn Óli Hauksson forstjóri KEF. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson