Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

KB banki opnar útibú í Reykjanesbæ
Miðvikudagur 12. apríl 2006 kl. 15:54

KB banki opnar útibú í Reykjanesbæ

Nýtt útibú KB banka á Suðurnesjum verður opnað síðla sumars í Reykjanesbæ, Hefur bankinn tryggt sér húsnæði á Hafnargötu 90 og var í hádeginu undrritaður húsaleigusamningur til næstu 15 ára á milli KB banka og fasteignafélagsins Mænis ehf, sem er systurfélag Atafls. Ráðist verður í miklar endurbætur á húsinu vegna þessa og hefjast framkvæmdir fljótlega.

Friðrik S. Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs KB banka, segir marga þætti hafa orðið til þess að bankinn tók þessa ákvörðun. Mikil uppbygging og uppgangur sé á svæðinu, þrátt fyrir það áfall sem hafi orðið við þá ákvörðun Varnarliðsins að hverfa af landi brott. Þá sé gert ráð fyrir talsverðri fjölgun íbúa á næstu árum auk þess sem bankinn hafi nú þegar talsverðan fjölda viðskiptavina á Suðurnesjasvæðinu. Fá svæði á landinu séu með hærri tekjur pr. íbúa og þetta sé markaðssvæði sem KB banki þurfi og vilji keppa á. Að sögn Friðriks verður byrjað með 5 starfsmenn og verður auglýst í
stöður þeirra á næstu dögum.

Farið verður í miklar endurbætur á húsnæðinu að Hafnargötu 90,  sem breytt verður í glæsllegt skrifstofu- og verslunarhúsnæði, en breytingarnar eru hannaðar af Alark arkitektum ehf. KB-banki verður með 300 fermetra til umráða af þeim 1200 fm sem húsnæðið telur og hafa margir aðilar sýnt áhuga á öðu plássi í húsinu, sem mun taka miklum stakkaskiptum. Stefnt er að því að opna útibú KB-banka í ágúst næstkomandi.

Mynd: Frá undirritun húsaleigusamningsins í hádeginu í dag. Á myndinni eru sitjandi frá v. þeir Friðrik S. Halldórsson og Hermann Björnsson frá KB banka og Bjarni Pálsson, fyrir hönd Atafls og Mænis ehf. Standandi frá v. eru þeir Albert B. Hjálmarsson, forstöðumaður framkvæmdasviðs Atafls og Jakob Líndal, arkitekt. VF.mynd: elg

 

Video: Myndband sem sýnir Hafnargötu 90 eftir breytingar.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024