Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kaupþing: Hirti barnabætur af atvinnulausri, einstæðri móður
Fimmtudagur 27. ágúst 2009 kl. 09:06

Kaupþing: Hirti barnabætur af atvinnulausri, einstæðri móður


Útibú Nýja Kaupþings í Reykjanesbæ hirti barnabætur af ungri, atvinnulausri og einstæðri móður um síðustu mánaðamót upp í skuldajöfnun á reikningi sem bankinn hafði greitt út af fyrir mistök, að sögn konunnar.
„Mér skilst að ekki sé lengur leyfilegt að skuldajafna barnabæturnar. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá Fjársýslu ríkisins var gert samkomulag milli bankanna og ríkisins um að ekki mætti nota barnabæturnar til að skuldajafna reikninga og kröfur. Þetta fékk ég staðfest hjá Fjársýslunni og þar á bæ var fólk undrandi á þessari ráðstöfun,“ segir konan.

Doreen Schneidewind átti von á barnabótum upp á 78 þúsund krónur en hún er  ung og atvinnulaus, einstæð móðir með eitt barn. Hún ákvað í júní síðastliðnum að beina bankaviðskiptum sínum til Landsbankans.

„Við stofnun á nýjum reikningi þar var mér sagt að barnabæturnar í ágúst myndu færast yfir á hann. Það hefur eitthvað skolast til því barnbæturnar fóru inn á gamla reikninginn í Kaupþingi.
Sá reikningur er í mínus og ekki með heimild. Aðalskuldinn á honum er til komin vegna greiðslu inn á greiðslujöfnunarreikning í desember 2008, sem ekki átti að greiðast.
Í desember 2008 átti þessi greiðslujöfnunarreikningur ekki einu sinni að vera til því að ég fékk það skriflegt í október 2008 að honum væri sagt upp,“ segir Dorreen þegar hún skýrir frá málsatvikum.

„Ég tilkynnti bankanum á sínum tíma að um mistök af þeirra hálfu væri að ræða en þau vildu ekki gera neitt í málinu. Hins vegar var ég látin greiða mánaðarlega inn á
þennan greiðslujöfnunarreikning til þess að laga skuldina á honum upp á 70 þúsund krónur.

Í kjölfar þess að ég skipti um banka var útgjaldareikningnum allt í einu eytt og skuldirnar sem voru á honum, tæpar 70 þúsund krónur,  færðar yfir á tékkareikninginn minn
sem stóð þá í tæpum 30 þúsundum í mínus, með yfirdráttarheimild upp á þá upphæð.

Ég var þar með komin í miklu hærri skuld á þessum reikningi því Kaupþing felldi niður yfirdráttarheimildina svo að ég stóð allt í einu með 110 þúsund króna skuld á tékkareikningnum, án heimildar,“ segir Doreen, allt annað en sátt við þessa ráðstöfun Kaupþings.

Að sögn Dorreen lyktaði málum þannig að eftir samtal hennar við útibússtjórann tók bankinn rúman helming barnabótanna upp í skuldina. „Ég ákvað að taka því þó ég væri alls ekki sátt við það. Það var þó skárra að fá helminginn heldur en ekki neitt. Það breytir því ekki að bankinn hefur ekki leyfi til að gera þetta,“ segir Doreen.

Í svari Nýja Kaupþings við fyrirspurn VF vegna þessa máls segir að saga konunnar komi á óvart þar sem umrædd afgreiðsla hafi verið í samræmi við samkomulag um hana.
„Eitt helsta verkefni Nýja Kaupþings er að aðstoða fólk í vanda við að leysa úr fjármálum sínum. Margs konar úrræði eru í boði og hvetur bankinn fólk til að leita sér ráða hjá þjónusturáðgjöfum. Það er leitt ef konan hefur upplifað viðskipti sín við bankann með þessum hætti en við hvetjum hana til að hafa samband að nýju svo hægt sé að leysa hennar mál,“ segir ennfremur í formlegu svari bankans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024