Kaupið Neyðarkallinn í ykkar heimabæ
Neyðarkall björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður seldur um land allt nú um helgina (3.-6. nóvember). Salan hefst í dag, fimmtudag. Er þetta í sjötta sinn sem þessi fjáröflun fer fram og er hún orðin ein sú mikilvægasta fyrir björgunarsveitir landsins.
Mikilvægt er að þeir sem ætla að kaupa Neyðarkallinn átti sig á því að þeir styrkja björgunarsveitirnar í sinni heimabyggð með því að kaupa Neyðarkallinn í sínum heimabæ. Þeir sem kaupa Neyðarkallinn í Reykjanesbæ, styðja björgunarsveitina þar, þeir sem kaupa í Garði styrkja sveitina í Garði og svo framvegis.
Afar mikilvægt er að vel takist til með söluna í ár þar sem björgunarsveitir hafa ekki farið varhluta af þeim tekjusamdrætti sem orðið hefur víðast hvar í þjóðfélaginu undanfarin ár. Á sama tíma hafa verkefnin verið ærin.
Þrjú eldgos sem eru með stærri aðgerðum björgunarsveita frá stofnun þeirra og mikil aukning í ferðamennsku eru meðal þeirra aðstæðna sem hafa valdið sífellt fleiri útköllum sjálfboðaliðanna í sveitunum.