Kaupa líkamsræktartæki fyrir 40 milljónir króna
- framkvæmdir við nýja líkamsrækt í Garði ganga samkvæmt áætlun
Framkvæmdir við nýja líkamsræktaraðstöðu í Íþróttamiðstöðinni í Garði ganga samkvæmt áætlun en gert er ráð fyrir að stöðin opni fljótlega á nýju ári. Nú eru menn að skoða líkamsræktartæki fyrir nýju stöðina.
Sveitarfélaginu hefur borist tilboð í tæki fyrir 40 milljónir króna og mun seljandi taka eldri tæki íþróttamiðstöðvarinnar upp í fyrir tæpar 3,6 milljónir. Sveitarfélagið þarf því að greiða 36,5 milljónir fyrir ný tæki.
Bæjarráð Garðs hefur samþykkt kaupin og veitt heimild til að staðfesta pöntun á tækjum. Um er að ræða fjárfestingu sem verður eignfærð á fjárhagsárinu 2015.