Katla Bjarnadóttir hlaut Hvatningarverðlaun fræðsluráðs
Hefur mætt sérþörfum nemenda varðandi mataræði í Holtaskóla
Katla Bjarnadóttir hlaut Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar 2016 en verðlaunin voru afhent í bíósal Duus Safnahúsa í gær mánudaginn 6. júní. Katla hlaut 100 þúsund króna peningaverðlaun.
Alls tuttugu og fimm verkefni voru tilnefnd að þessu sinni. Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar eru ætluð kennurum, kennarahópum og starfsmönnum í leikskólum, grunnskólum og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Verðlaunin eru veitt fyrir starf eða verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni.
Katla sem er starfsmaður í mötuneyti Holtaskóla þykir hafa sýnt einstaka hugkvæmni í störfum sínum sem hefur leitt til bætts árangurs og líðan nemenda. Hún hefur að eigin frumkvæði leitað nýrra leiða til að mæta sérþörfum nemenda þegar kemur að mataræði og eru áhrif af störfum hennar sögð ná langt út fyrir veggi skólans.
„Það ætlum við einmitt að gera hér í dag, að hrósa fyrir vel unnin störf. Þetta eru oftar en ekki störf sem eru svolítið falin fyrir okkur sem stöndum þeim ekki nærri. Því finnst mér það mikilvægt að kalla eftir tilnefningum úr samfélaginu og sjá hvað er verið að vinna gríðarlega gott og metnaðarfullt starf í okkar skólasamfélagi,“ sagði Alexander Ragnarsson formaður fræðsluráðs í ávarpi sínu.