Kastaðist af torfæruhjóli
Lögreglunni á Suðurnesjum barst um miðjan dag í fyrradag tilkynning þess efnis að piltur hefði kastast af mótorhjóli og slasast. Óhappið átti sér stað á Sandgerðisvegi. Um var að ræða sextán ára pilt sem var á ferð ásamt félaga sínum og óku þeir torfæruhjólum á miklum hraða, að sögn sjónarvotta. Annað hjólið tókst á loft, kollsteyptist, fór nokkra hringi og pilturinn flaug af því. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar og reyndist hann vera lærbrotinn. Sendibifreið var fengin til að fjarlægja hjólið af vettvangi. Málið er í rannsókn.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				