Kastaði sér fyrir bíl eftir sveppaát
Mikil mildi þykir að ekki fór verr en raun bar vitni þegar rúmlega tvítugur karlmaður kastaði sér fyrir bifreið í Reykjanesbæ í gærkvöld. Lenti annar fótur hans undir framhjóli bifreiðarinnar, en ekki var talið að hann hefði brotnað. Maðurinn var greinilega undir miklum áhrifum fíkniefna og talaði samhengislaust, þegar lögreglumenn á Suðurnesjum ræddu við hann eftir atvikið, en gat þó tjáð þeim að hann hefði borðað töluvert magn af ofskynjunarsveppum fyrr um kvöldið.
Ökumaður bifreiðarinnar tjáði lögreglu á vettvangi að maðurinn hefði komið stökkvandi frá skemmtistað, ber að ofan, og kastað sér fyrir bifreiðina, með ofangreindum afleiðingum. Hann hefði svo legið í götunni og öskrað í skamma stund áður en hann stóð upp og hljóp aftur að skemmtistaðnum. Þegar lögreglumenn komu að staðnum stóð hann þar, enn ber að ofan, og var með ógnandi tilburði og hávaða við dyravörð og gesti staðarins. Hann var færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa þar til víman var runnin af honum.