Karlmaðurinn sem reyndi að flýja kominn með dvalarleyfi
Karlmaðurinn sem stökk út um glugga á annarri hæð til þess að sleppa úr haldi Lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli hefur fengið tímabundið dvalarleyfi ásamt stúlkunum þrem en þau voru öll stöðvuð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með ólögleg vegabréf fyrir rúmum tveimur vikum síðan.
Þeim hugnaðist ekki vistin á gistiheimilinu í Reykjanesbæ og reyndi þess vegna karlmaðurinn, sem er 24 ára gamall Singapúri, að stinga af.
Eyjólfur Kristjánsson hjá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli sagði í samtali við Víkurfréttir að á þeim tíma sem karlmaðurinn hafi stokkið út um gluggann hefði verið mikil óvissa á meðal ungmennanna um sína framtíð og hvað biði þeirra. „Einhver slík óvissa hefur fengið hann til þess að reyna að flýja en þetta var nú ekkert alvarlegt,“ sagði Eyjólfur.
Karlmaðurinn sem handtekinn var vegna meints mansals var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í dag í 6 mánaða fangelsisvist fyrir að hafa aðstoðað ungmennin við að ferðast ólöglega á milli landa.
„Ungmennin verða ekki kærð,“ sagði Eyjólfur.
VF-mynd: Atli Már