Karlmaður synti til hafs og kona í höfnina
Tveir starfsmenn Brunavarna Suðurnesja [BS] ásamt lögreglumanni björguðu lífi karlmanns aðfararnótt sl. sunnudags. Maðurinn hafði farið í sjóinn við Ægisgötu í Keflavík og synti til hafs.
Starfsmenn BS og lögreglu klæddust flotgöllum og syntu á eftir honum og náðu að koma honum til bjargar en ekki mátt tæpara standa með þá björgun. Var maðurinn orðinn mjög þrekaður og reyndist mjög erfitt að koma honum á þurrt í grjóthleðslunni við Ægisgötuna. Að sögn Jóns Guðlaugssonar, slökkviliðsstjóra, var maðurinn nærri drukknaður en hann mun hafa farið tvisvar sinnum niður áður en björgunaraðilar náðu honum. Maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en hann var orðinn mjög kaldur eftir sundferðina.
Björgunarmenn voru rétt komnir úr þessu útkalli á stöð þegar annað útkall barst frá Neyðarlínunni en þá hafði kona farið í Keflavíkurhöfn. Þegar til kom náði hún að komast til lands köld og hrakinn. Hún var flutt á HSS til skoðunar.