Karfavinnsla að hefjast í Innri-Njarðvík
Unnið er að því að koma á fót karfavinnslu í fiskvinnsluhúsum að Njarðvíkurbraut 51-55 í Innri-Njarðvík. Haukur Guðmundsson er einn forsvarsmanna fyrirtækisins en með honum í samstarfi eru norsk/rússneskir aðilar.
„Við erum að vinna í því að koma af stað vinnslu í húsinu. Það sem stendur upp úr í þessu máli að mínu mati er að bærinn mun ekki tapa neinu á þessu þegar upp er staðið,“ sagði Haukur Guðmundsson í samtali við Víkurfréttir.
Aðspurður hvort hann teldi ekki að bærinn hafi tapað á ábyrgðinni og kaupum á húsinu sagði Haukur að verðmæti hússins væri 78 milljónir króna samkvæmt mati sem verkfræðistofan Hönnun gerði á síðasta ári. Sagði Haukur einnig að verðmæti tækja í húsinu væru samkvæmt mati frá árinu 1996 um 23 milljónir króna.
Að sögn Hauks er gert ráð fyrir að aðilarnir sem eru í samstarfi við hann um karfavinnsluna leysi til sín húsin á kostnaðarverði. „Við erum að vinna í þessum málum og höfum rætt þetta við bæjaryfirvöld. Samstarfsaðilar mínir hafa verið með mikil verðmæti hér á landi, bæði á Djúpavogi og í Þorlákshöfn. Við gerum ráð fyrir að um 25 manns komi til með að starfa við verksmiðjuna.“
Togarinn Haukur ÍS mun sjá vinnslunni fyrir afurðum og landa í Reykjanesbæ. Gert er ráð fyrir að togarinn hefji karfaveiðar þann 20. maí að sögn Hauks.
Myndin: Njarðvíkurbraut 51-55 sem Reykjanesbær keypti á 24 milljónir á uppboði vegna ógreiddra fasteignagjalda að upphæð 14 milljónir króna. Árið 1996 veitti Reykjanesbær Hauki Guðmundssyni bæjarábyrgð uppá 15 milljónir króna. Sú ábyrgð er nú til innheimtu og er heildarupphæð krafna rúmar 32 milljónir króna. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.