Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Karen Valdimarsdóttir tekur við rekstri Gimli
Fimmtudagur 30. desember 2004 kl. 18:15

Karen Valdimarsdóttir tekur við rekstri Gimli

Í dag var undirritaður þjónustusamningur milli Reykjanesbæjar og Karenar Valdimarsdóttur, leikskólastjóra, um rekstur leikskólans Gimli í Njarðvík. Þjónustusamningurinn tekur gildi 1. janúar 2005 og er samningurinn í upphafi gerður til reynslu til 31. desember 2005 og endurskoðast í lok þess tíma. Er þetta fyrsti leikskólinn í Reykjanesbæ sem rekinn verður af einkaaðila.

Í byrjun október s.l. var tekið fyrir í fræðsluráði Reykjanesbæjar erindi Karenar Valdimarsdóttur, leikskólastjóra Gimlis varðandi þjónustusamning um rekstur leikskólans. Jafnframt var lagt fram erindi foreldrafélags Gimlis, þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við verkefnið. Fræðsluráð mælti með því að teknar yrðu upp viðræður við Karenu varðandi slíkan þjónustusamning. Á fundi bæjarráðs 23. desember s.l. samþykkti ráðið fyrirliggjandi samning og faldi bæjarstjóra jafnframt að undirrita hann fyrir hönd Reykjanesbæjar, sem er verkkaupi.

Í samningnum kemur fram að rekstraraðili beri fulla og óskipta ábyrgð á öllum rekstri leikskólans en hann er uppsegjanlegur af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara. Einnig kemur fram að hvor samningsaðili um sig geti óskað eftir endurskoðun á ákvæðum samningsins að þremur mánuðum liðnum frá gildistöku hans og hvenær sem er eftir það. Samningurinn á á engan hátt að skerða gæði leikskólastarfsins né aðbúnað barnanna í skólanum. Hagsmuni barnanna á eftir sem áður að hafa að leiðarljósi, enda skal rekstraraðili skila til Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar öllum rekstrargögnum og áætlunum og skrifstofan getur, samkvæmt samningnum, komið fram sem fulltrúi Reykjanesbæjar, eftir því sem við á.

Í samtali við Víkurfréttir sagðist Árni Sigfússon, bæjarstjóri vonast til þess að núja fyrirkomulagið muni auka þjónustugæði leikskólans. „Svo vona ég að þetta verði til heilla fyrir samfélagið.“

Árni útilokaði ekki að svipuð leið yrði farin með aðra leikskóla í Reykjanesbæ. „Ef vilji starfsmanna er fyrir því er auðveldara að taka þá ákvörðun. Okkur liggur annars ekkert sérstaklega á, en ef við finnum fyrir auknum áhuga fyrir að vinna eftir þessu formi erum við reiðubúin til að skoða það.“
Árni sagðist afar ánægður með að Karen skuli hafa tekið við þessu verkefni og bætti því við að hann bæri fyllsta traust til allra leikskólastjóra bæjarins til að fylgja í fótspor hennar.

Hluti texta af reykjanesbaer.is.

VF-myndir Þorgils Jónsson. 1: Skrifað undir samninginn. 2: Árni og Karen skála í kakói að lokinni undirskrift.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024