Kannast ekki við sögusagnir um slæman hljómburð
Sögum fer af því að hljómburður í nýendurbættum Stapa sé ekki nógu góður þrátt fyrir að salurinn hafi verið endurhannaður með stórbættan hljómburð í huga. Haraldar Á. Haraldsson, verkefnastjóri Hljómahallarinnar, segist ekki hafa heyrt þennan orðróm. Hann komi sér á óvart enda sé hljómburður í Stapanum frábær.
Samkvæmt því sem VF barst til eyrna mun Karlakór Keflavíkur hafa verið í vandræðum með hljómburðinn í Stapa og því fært tónleikaröð sína í Ytri-Njarðvíkurkirkju. Þá hafi popptónleikar þar á dögunum ekki hljómað eins og best verður á kosið.
„Hljómburður í Stapa, Hljómahöllinni, er frábær. Ég gat ekki verið viðstaddur æfingu Karlakórsins þar um daginn en ég er afar hissa á því að kórinn hafi ekki getað haldið þar tónleika vegna hljómburðarins. Það hafa reyndar aldrei verið haldnir kórtónleikar eftir breytingar svo ég get ekki dæmt um þetta varðandi kóra. Því miður liggur hljómburðarkerfi salarins niðri vegna galla í gagnaminni, svo kórinn gat ekki prófað sig með kerfið á. Það verður lagfært eftir tvær vikur,“ segir Haraldur.
Haraldur bendir einnig á að nokkrir af bestu söngvurum þjóðarinnar, m.a. Kristján Jóhannsson og Jóhann Smári Sævarsson, hafa gefið sal Stapans hæstu einkunn.
„Kristján segir þetta reyndar besta tónleikasal sem hann hafi sungið í hér á landi. Hann er á leiðinni aftur til tónleikahalds í Stapa í desember. Færustu hljóðfæraleikarar eins og Kurt Kopecky o.fl. dásama salinn. Tónlistarskólinn er búinn að halda marga tónleika af mismunandi stærðum og útfærslum í Stapa og við erum afar ánægð,“ segir Haraldur ennfremur.
Hann var einnig inntur eftir því af hverju vortónleikar strengjasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar væru haldnir í Ytri-Njarðvíkurkirkju en ekki í Stapa, sem þó væri hannaður fyrir tónleikahald skólans.
„Ástæðan fyrir því að Strengjasveitir Tónlistarskólans halda tónleika sína í Ytri-Njarðvíkurkirkju er sú að heppilegasti dagurinn fyrir þær, þ.e. 12. maí, er ekki laus í Stapa vegna annarra tónleika Tónlistarskólans þar. Þá tókum við næst skásta kostinn fyrir þessar sveitir og fórum í kirkjuna,“ segir Haraldur.
---
VFmynd/elg – Þessi píanóleikur í Stapa nú í vikunni hljómaði alveg prýðilega.