Kannað hvort hermenn hafi verið utan varnarsvæðis
Viðræður fóru fram í gær milli embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og Varnarliðsins vegna öryggisgæslu hermanna í og við Helguvík á sunnudag. Íbúar kvörtuðu til lögreglunnar í Keflavík undan nærveru hersins, m.a. við kirkjugarð Keflvíkinga við Garðveg. Verður það kannað sérstaklega hvort hermenn hafi verið utan varnarsvæðisins eða ekki. Morgunblaðið greinir frá.
Ellisif Tinna Víðisdóttir, staðgengill sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sagði við Morgunblaðið að reyndist skoðun leiða í ljós að hermennirnir hefðu farið út fyrir skilgreint varnarsvæði þá hefði verið um mannleg mistök að ræða sem myndu ekki endurtaka sig. Hermenn hefðu heimild til að vera innan varnarsvæðis og þá sýnilegir með vopn án þess að við því væri eitthvað hægt að gera. Komur olíuskipa í Helguvík væru ávallt vaktaðar, eins og á sunnudag.
Sagði hún málið verða væntanlega tekið fyrir á næsta reglulega fundi embættisins með stjórnendum Varnarliðsins. Að öðru leyti væri ekki ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.
Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Varnarliðsins, segir það liggja fyrir að stór hluti Rosmhvalaness, frá Reykjanesbæ út á Garðskaga, sé varnarsvæði. Það nái með veginum út í Garð og síðan þvert í austur og meðfram vegi sem liggur fyrir norðan kirkjugarð Keflvíkinga. Spurningin sé m.a. sú hvort hermennirnir hafi verið sunnan kirkjugarðsins eða ekki.
Friðþór bendir á að herlögreglumenn á svæðinu hafi í fyrstu verið óvopnaðir. Vopnaðir menn hafi ekki sést fyrr en eftir að íslenskir lögreglumenn komu á svæðið. Herlögreglumenn hafi þá kallað til yfirmenn sína, sem hafi verið vopnaðir og komið af varnarsvæðinu, hafi hinir verið fyrir utan það, segir í Morgunblaðinu í dag.
Ljósmyndir: Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson