Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kannabisplönturnar úr Sandgerði skornar og settar í geymslu
Föstudagur 3. apríl 2009 kl. 18:32

Kannabisplönturnar úr Sandgerði skornar og settar í geymslu

Kannabisplönturnar 180 sem lögreglan á Suðurnesjum tók með áhlaupi á heimahús í Sandgerði í fyrrinótt hafa verið skornar og settar í geymslu. Plönturnar voru á ýmsum stigum, allt frá því að vera litlir sprotar upp í það að vera fullvaxnar plöntur sem voru farnar að gefa af sér afurðir.

Kannabisræktunin í Sandgerði er fyrsta stóra framleiðslan sem lögreglan á Suðurnesjum gerir upptæka í "herferð" lögreglunnar gegn kannabisræktun sem verið hefur áberandi í fréttum sl. daga og vikur.

Ekki er upplýst hvaða aðferðum lögreglan á Suðurnesjum beitti til að hafa uppi á framleiðslustaðnum, en bent hefur verið á þá möguleika að lögreglan lesi orkureikninga og beiti hitamyndavélum, en mikla orku þarf til ræktunar á kannabis og þá munu húsin sem ræktunin fer fram í vera eins og lýsandi vitar þegar hitamyndavélum er beitt.

Meðfylgjandi ljósmynd er af einni kannabisplöntunni sem lögreglan á Suðurnesjum hefur nú í fórum sínum. Plönturnar hafa verið skornar og eru geymdar í sekkjum þar til dómur hefur fallið. Þá fyrst verður hægt að eyða plöntunum.

Ljósmynd: Kannabisplanta úr Sandgerði. Mynd frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024