Kaninn sendi HS 10 milljón dollara ávísun í pósti
Hitaveita Suðurnesja er loksins búin að fá greitt frá Varnarliðinu þær 10 milljónir dollara sem samið var um vegna samningsrofs um kaup á heitu vatni sem varð við brotthvars Bandraríkjahers frá Íslandi.
Upphæðin var ekki millifærð eins og gengur og gerist í nútíma viðskiptum heldur kom ávísun upp á 10 milljónir dollara í pósti.
Átta mánuðir eru liðnir síðan samið var um greiðsluna við riftun orkusölusamningsins. Þetta kemur fram í Fréttaveitunni, fréttabréfi Hitaveitu Suðurnesja.
Stjórn HS samþykkti í október í fyrra að taka tilboði Bandaríkjahers um eingreiðslu upp á 10 milljónir dollara við samningslok. Það var nokkuð lægri upphæð en HS taldi efni standa til. Stjórn HS vildi hins vegar frekar taka tilboðinu en að leggja út í löng og kostnaðarsöm málaferli fyrir bandarískum dómstólum með óvissum ávinningi.
Varnarliðið var stærsti einstaki viðskiptavinur Hitaveitu Suðurnesja.
Mynd: Frá fyrrum varnarstöð bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Þessir dátar ylja sér ekki lengur við íslenskt hitaveituvatn á dimmum vetrarkvöldum.