Kaninn ætlar ekki að verða við banninu
Útvarpsstöðin Kaninn í Reykjanesbæ hefur leitað álits lögfræðings sem telur að stöðin sé í fullum rétti til að flytja lögin úr forkeppni Ríkissjónvarpsins um Eurovisionlögin í ár. Eftir að Kaninn flutti lögin í gær barst símtal frá dagskrárdeild RÚV þar sem stöðinni var bannað að flytja þau.
Í orðsendingu frá forsvarsmönnum Kanans segir að lögin hafa verið birt opinberlega á vef RÚV öllum til skoðunnar og hægt sé að spila lögin þaðan. Kaninn standi skil á greiðslum á opinberum flutningi á öllu efni til STEFS og SFH. Evrovison - lögin séu birt á vefsvæði RÚV og ekkert tekið fram þess efnis að einum eða öðrum sé bannað að flytja efnið.
Kaninn hefur leitað álits Sigurðar G. Guðjónssonar, lögfræðings, sem telur að útvarpsstöðin sé í fullum rétti að flytja efnið enda sé það í raun útgefið þegar það hafi verið birt með þessum hætti á vef Sjónvarpsins. Kaninn ætlar þess vegna ekki að lúta þessu sértæka banni RÚV á flutningi laganna á Kananum, segir í tilkynningunni.