Kalka vísar ákvörðun um sameiningu við SORPU til bæjarstjórna
„Viðræðunefndir Kölku og SORPU ásamt ráðgjöfum Capacent og stjórnum fyrirtækjanna hafa unnið að sameiningarviðræðum frá miðju ári 2016. Eftir þessar ítarlegu viðræður og yfirferð er stjórn Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. sammála um að sameining fyrirtækjanna geti verið mjög góður kostur fyrir sveitarfélögin með framtíðarhagsmuni og umhverfissjónarmið að leiðarljósi,“ segir í bókun frá stjórnarfundi Kölku og birt er á vef Grindavíkurbæjar.
Þá segir einnig í bókuninni: „Nú er málið komið á það stig að góðar upplýsingar og hugmyndir liggja fyrir um á hvaða grundvelli hægt er að kynna mögulega sameiningu fyrir bæjarstjórnum sveitarfélaganna. Á þeim forsendum samþykkir stjórn Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir sitt leyti að vísa frekari ákvörðunum um framhald málsins til bæjarstjórna sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Fyrirkomulag um kynningu á málinu verði framkvæmd í samráði við fulltrúa bæjarstjórnanna“.
Reykjanesbær hefur samið við ráðgjafa um að gefa álit á stöðu mála í sameiningarviðræðum Kölku og Sorpu. Grindavíkurbæ býðst að gerast aðili að þessum ráðgjafarstörfum og því hefur bæjarstjórn Grindavíkur falið bæjarstjóra að vinna málið áfram og afla frekari gagna.