Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kalka með herferð í endurvinnslu
Fimmtudagur 11. nóvember 2004 kl. 11:18

Kalka með herferð í endurvinnslu

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja hrinti í síðustu viku af stað herferð sem miðar að því að vekja almenning og fyrirtæki á svæðinu til vitundar um sorpflokkun og þann mikla ávinning sem af slíku fæst. Sorpeyðingarstöðin flutti starfsemi sína fyrr á árinu í Kölku, stærstu sorpbrennslustöð landsins, í Helguvík. Þar er móttökustöð fyrir úrgang frá heimilum a svæðinu og einnig gámastöð þar sem almenningi gefst færi á að koma með forflokkaðan úrgang til endurvinnslu og/eða eyðingar endurgjaldslaust. Auk Kölku rekur SS tvær aðrar gámastöðvar, í Vogum og Grindavík.

Vinna með almenningi og fyrirtækjum
Víkurfréttir tóku Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóra Sorpeyðingar Suðurnesja, tali á dögunum og forvitnuðust um verkefnið.
Guðjón sagði að með því væri verið að vekja fólk til vitundar um endurvinnslu og sorpmál. „Við erum komnir með nýja stöð og höfum verið að aðlaga okkur að nýju og breyttu umhverfi. Við erum að snúa okkur að því að vinna með almenningi og fyrirtækjum í að minnka sorp og flokka og draga þannig úr þeim kostnaði sem fyrirtæki og sveitarfélögin hafa af þessu.”

Aukin endurvinnsla
Áhersla er lögð á að auka endurvinnslu á pappír og pappa því afar erfitt er að brenna slíkt í ofni Kölku og hefur aukinn kostnað í för með sér. Í brennsluofninum er hitinn á bilinu 850 til 1100 gráður, en ef hitinn fer undir þau mörk er olíu sjálfkrafa sprautað yfir eldinn.
Tímasetning verkefnisins er valin af þeirri ástæðu að á þessum árstíma, þ.e. þegar jólin fara að nálgast, er jafnan mikil aukning á heimilissorpi og sérstaklega pappír.
„Okkur langar að fara í herferð með almenningi og fyrirtækjum þannig að við hjálpumst að við að ráða við þessa törn sem er oft í desember og janúar.
Það er hvatning til að flokka betur og koma inn á gámasvæðið með úrganginn vel flokkaðan í timbur, málma, pappír, dagblöð og þar fram eftir götunum. Eins viljum við líka hvetja fyrirtæki til að koma með sorpið betur flokkað, enda lækka líka hjá þeim gjöldin með því.”

Eins og við er að búast var aðlögunin yfir í Kölku ekki hnökralaus og að sögn Guðjóns er enn verið að vinna að því að koma öllu til betri vegar. „Það hafa komið upp ýmsir örðugleikar eins og oft vill verða í svo flóknum verkefnum, en nú sér fyrir lokin á því og verður gerð lokaúttekt á verkinu um miðjan mánuðinn. Árið hefur verið erfitt og mikið álag á starfsmenn. Við keyrðum gömlu stöðina fram í apríl og það má segja að það sé ennþá verið að vinna að ýmsum frágangi og endurbótum hér á nýju stöðinni þrátt fyrir að við höfum getað verið að brenna mestallan tímann. Nú getum við snúið okkur að næsta kafla sem er að kynna okkur og fá fólk til að vinna með okkur í flokkun og öðru þvíumlíku.”

Lengri opnunartími gámastöðva
Opnunartími gámastöðvanna hefur ekki verið öllum að skapi, en í haust var tíminn rýmkaður nokkuð til að koma til móts við óskir viðskipta-vina.
„Við vorum með mjög rúman opnunartíma uppi í gömlu stöð sem helgaðist af því að þar var hent meira eftirlitslaust,” segir Guðjón. „Núna viljum við hins vegar hafa allar móttökustöðvar mannaðar þannig að við getum farið í gegnum þessi mál með fólkinu sem kemur á stöðvarnar og sagt þeim til. Þessvegna er móttaka fyrir almenning í Kölku nú opin frá 13-19 alla daga  og 13-19 um helgar. Í Grindavík er opið frá 15-19 virka daga og 13-18 laugardögum, í Vogum 15-19 þriðjudag/fimmtudag/föstudag og 13-18 á sunnudögum.
 
Tökum þátt í verkefninu
Að lokum vill Guðjón skora á sem flesta að taka þátt í þessu verkefni. „Við viljum hvetja alla til að skoða sín mál. Annars vegar hvernig er gengið frá í ruslatunnurnar sjálfar, þ.e. að fólk brjóti saman kassa og fernur þannig að það rúmist betur og hins vegar að þau komi á móttökustöðvarnar með hlutina flokkaða þannig að afgreiðsla geti verið hröð og góð. Þá geta þau nýtt sér okkar starfsmenn til að aðstoða sig og veita sér upplýsingar um þessi mál.”
VF-Mynd og texti/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024