Kaldhæðnislegar áhyggjur
Haft er eftir Sigurði Val Ásbjarnarsyni bæjarstjóra í Sandgerði í Fréttablaðinu í dag að hann taki undir áhyggjur starfsbróður síns á Akranesi, Gísla Gíslasyni, en Gísli hefur lýst miklum áhyggjum af afleiðingum breytts eignarhalds Eimskipafélagsins á útgerðarfyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni. Sigurður Valur segir í samtali við Fréttablaðið að honum þyki þetta kaldhæðnislegt því hann muni ekki eftir því að Gísli hafi haft mörg orð um það þegar kvótinn fór nær allur frá Sandgerði og upp á Akranes fyrir nokkrum árum þegar útgerðarfélagið Miðnes var selt upp á Akranes. Sigurður segir að þá hafi verið um að ræða að 7,5% af íbúafjölda Sandgerðis sem misstu vinnuna, en það séu ekki nema 5,5% af íbúafjölda Akraness sem myndi missa vinnuna. Sigurður tekur hinsvegar heilshugar undir áhyggjur Gísla og telur að breytt eignarhald geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Akranes og íbúa þess. Sigurður segir að hann vonist til að Gísli haldi áfram með málið og skili kvótanum til Sandgerðis.