Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Kaflaskil í endurskipulagningu fjármála Reykjanesbæjar
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs fór yfir stöðu mála um endurskipulagninguna.
Miðvikudagur 20. september 2017 kl. 18:57

Kaflaskil í endurskipulagningu fjármála Reykjanesbæjar

- Þriggja ára sammingaviðræðum við kröfuhafa lokið

„Loksins, loksins“, sögðu bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi í dag en þá samþykkti bæjarstjórn samhljóða aðgerðir vegna endurskipulagningar efnahags bæjarins og Reykjaneshafnar. Hér er um að ræða endalokin á vinnu við endurreisn fjármála Reykjanesbæjar sem staðið hafa yfir með viðræðum við kröfuhafa undanfarin þrjú ár. Skilyrðið var að sveitarfélagið myndi komast undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrir árslok 2022.

„Við erum að tala um kaflaskil í endurskipulagningu fjármála Reykjanesbæjar. Áður hafði verið lögð fram aðlögunarráætlun og nú er búið að tryggja sátt um forsendur hennar. Síðan verður það verkefni komandi bæjarstjórna að fylgja henni og tryggja þannig að bæjarfélagið sé undir lögboðnum skuldaviðmiðum,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.
Heildarskuldir Reykjanesbæjar eru um 44 milljarðar og verkefnið var að lækka þær um rúma 6 milljarða. Það er gert með ýmsum hætti, m.a. með eftirgjöf á vöxtum og tilfærslu í félagslegu húsnæðiskerfi bæjarins. Reykjanesbær hefur fengið lánsloforð frá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð um 3,6 milljarða króna sem gerir bæjarfélaginu kleift að endurfjármagna m.a. skuldir Reykjaneshafnar. Lánsloforðinu er sett það skilyrði að endurskipulagning fjárhags samstæðu Reykjanesbæjar leiði til þess að markmiðum aðlögunaráætlunar fyrir árin 2017-2022, sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti þann 18. apríl 2017, verði náð.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þá verður Eignarhaldsfélaginu Fasteign skipt upp í tvö félög, annars vegar félag sem heldur utan um eignir sem tengjast grunnþjónustu sveitarfélagsins (EFF1) og hins vegar félag sem heldur utan um eignir sem ekki tengjast grunnþjónustu sveitarfélagsins (EFF2). Skuldir félaganna verða endurfjármagnaðar og gerðir við þau nýir leigusamningar til langs tíma.
Reykjanesbær mun nýta sér lánafyrirgreiðslu frá Lánasjóði sveitarfélaga og taka lán sem verður endurlánað til Reykjaneshafnar. Reykjaneshöfn mun nýta lánið til þess greiða upp hluta skulda hafnarinnar. Nú liggur fyrir vilji mikils meirihluta kröfuhafa Reykjaneshafnar fyrir því að fallast á uppgreiðslu og skilmálabreytingar sem lagðar hafa verið til.
Ekki verða þó allar skuldir hafnarinnar greiddar upp heldur verður hluti þeirra endurfjármagnaður með veði í lóðum hafnarinnar, en sölu á lóðum er ætlað að standa undir greiðslu þeirra lána.
Afborganir af lánunum skulu greiðast eftir því sem hinar veðsettu lóðir seljast og skulu greiðslur til Landsbankans og Íslandsbanka skiptast hlutfallslega miðað við stöðu lána meðan skuld er enn útstandandi samkvæmt báðum lánum.

Með þessum aðgerðum, og ýmsum öðrum, gerir aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar ráð fyrir að sveitarfélagið nái undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrir árslok 2022. Það veltur þó á því að helstu forsendur aðlögunaráætlunar gangi eftir og að mikils aðhalds verði gætt í rekstri Reykjanesbæjar næstu ár.

Frá bæjarstjórnarfundinum þar sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða endurskipulagningu efnahags bæjarins. VF-myndir/pket.