Kaffitár opnar kaffibar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og Kaffitár ehf. hafa undirritað samning um rekstur kaffibars á 2. hæð frísvæðisins í Flugstöðinni til næstu 7 ára. Framkvæmdir eru hafnar við húsnæði Kaffitárs, en starfsemi mun hefjast um miðjan júní.
Kaffitár mun bjóða upp á kaffidrykki sem fyrirtækið er þekkt fyrir s.s. expressó, cappuccino, latte, macciato, auk þess sem í boði verða safar, vatn og aðrar sambærilegar drykkjavörur ásamt brauði og meðlæti. Einnig verða til sölu smávörur sem tengjast kaffi og kaffiuppáhellingu.
Fyrirtækið Kaffitár ehf. er stofnað árið 1989. Eigendur fyrirtækisins eru Aðalheiður Héðinsdóttir kaffimeistari og fjölskylda hennar. Kaffitár ehf. rekur kaffibrennslu og kaffihús í Njarðvík, kaffihús og kaffibúðir í Kringlunni og Bankastræti 8 í Reykjavík. Fyrirtækið annast dreifingu á framleiðslu undir vörumerki Kaffitárs til verslana, fyrirtækja og veitingahúsa um allt land.
FLE hf. efndi til forvals um aðgang og afnot af verslunar- og þjónusturýmum í Flugstöðinni fyrir tæpum tveimur árum. Umsóknir um rekstur veitingaþjónustu bárust frá fjölda fyrirtækja. Eftir mat á umsóknum var Kaffitári boðið til samstarfs um rekstur kaffibars í Flugstöðinni enda féllu hugmyndir fyrirtækisins vel að markmiðum forvalsins um aukna þjónustu við farþega í Flugstöðinni. Samningurinn við Kaffitár er þó aðeins hluti af samningum um veitingaþjónustu í stöðinni.
Myndin: Aðalheiður Héðinsdóttir framkvæmdastjóri Kaffitárs ehf., Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri FLE hf. og Stefán Þórarinsson varaformaður stjórnar FLE hf. undirrituðu samninginn í brottfarasal Flugstöðvarinnar.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson