Kaffitár krefst þess að sýslumaður sæki gögn til Isavia
Kaffitár ætlar að óska aðstoðar sýslumanns við að fá gögn frá Isavia afhent. Isavia ohf. hefur tilkynnt að fyrirtækið ætli ekki að virða niðurstöðu úrskurðarnefndar í upplýsingamálum í máli nr. 579/2015 og 586/2015 um afhendingu gagna til Kaffitárs ehf. vegna opinberrar samkeppni um leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
„Neitun Isavia á því að afhenda gögnin er ólögmæt og fyrirhuguð málshöfðun án lagaheimildar. Kaffitári er því nauðugur sá kostur að óska aðstoðar sýslumanns við að fá gögnin afhent. Í samræmi við 3. mgr. 23. greinar upplýsingalaga hefur Kaffitár leitað til Sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu og krafist afhendingar gagnanna með aðför,“ segir í tilkynningu sem Kaffitár hefur sent til fjölmiðla.
Í tilkynningu Kaffitárs segir að forsaga málsins er sú að Isavia vildi ekki una úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015, sem birtur var 15. maí sl., þar sem fram kemur að Isavia skuli afhenda Kaffitári tilboð og fylgiskjöl fjögurra fyrirtækja sem auk Kaffitárs kepptu um leigurými í flugstöðinni. Þá var ISAVIA gert að afhenda einkunnir allra fjögurra fyrirtækjanna sem tóku þátt í samkeppninni.
Úrskurðarnefnd vísaði frá kröfu Kaffitárs um aðgang að gögnum sem vörpuðu ljósi á þær einkunnir sem einstakar tillögur fengu í ferlinu þar sem Isavia upplýsti með bréfi dags. 6. febrúar 2015 að engin gögn væru til hjá félaginu til rökstuðnings á einkunnum tillagna fyrirtækja.
Nefndin taldi að án aðgangs að einkunnum, tilboðum og fylgiskjölum væri lögvarinn réttur tekin af Kaffitári til að ganga úr skugga um hvort almennar reglur útboðs- og stjórnsýsluréttar hafi verið virtar í samkeppninni.
Í kjölfar úrskurðarins óskaði Isavia eftir að nefndin endurskoðaði niðurstöðu sína, en til vara fór Isavia fram á að gagnafhendingunni yrði frestað, meðan félagið ræki mál fyrir dómstólum til ógildingar niðurstöðu úrskurðarnefndar. Í úrskurði nr. 586/2015 frá 31. júlí var báðum kröfum Isavia hafnað. Í ítarlegri umfjöllun nefndarinnar var öllum rökum Isavia sömuleiðis hafnað, þar á meðal um að sérstök sjónarmið gildi um opinber fyrirtæki í 100% eigu ríksins, enda er það sérstaklega tekið fram í upplýsingalögum að þau gildi fullum fetum um fyrirtæki sem eru í eigu ríkisins að 51% hluta eða meira. Úrskurðarnefndin hafnaði einnig ávirðingum Isavia um að ósamræmi væri milli úrskurða í málum Kaffitárs og Gleraugnamiðstöðvarinnar. Kaffitár fékk aðgang að fjárhags- og viðskiptagögnum vegna þess að þau voru ráðandi um lyktir samkeppninnar í tilfelli Kaffitárs. Sambærileg sjónarmið áttu hins vegar ekki við í tilviki Gleraugnamiðstöðvarinnar, þar sem fyrirtækið náði ekki lágmarkseinkunn í tæknilegum hluta samkeppninnar og fjárhagsgögn komu ekki til skoðunar.
Í 23. grein upplýsingalaga segir að úrskurður samkvæmt upplýsingalögum um „aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.“ Úrskurðarnefnd hefur þegar hafnað frestun réttaráhrifa. Engin lagaheimild er því til að höfða ógildingarmál fyrir dómstólum við þessar aðstæður. Hugmyndir Isavia um málshöfðun fyrir dómstólum á þessu stigi málsins sæta því nokkurri furðu, segir að lokum í tilkynningu Kaffitárs.