Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kaffihátíð í Reykjanesbæ 11. til 13. júní
Fimmtudagur 3. júní 2004 kl. 16:29

Kaffihátíð í Reykjanesbæ 11. til 13. júní

Ákveðið hefur verið að halda kaffihátíð í Reykjanesbæ dagana 11. – 13. júní en um þær mundir fagnar bæjarfélagið 10 ára afmæli (11. júní) auk þess sem Byggðasafn Suðurnesja setur upp 25 ára afmælissýningu í nýjum sal í Duushúsum en þar verður m.a. boðið upp á sérstakt kaffihorn með ýmsum munum sem tengjast neyslu á þessum vinsæla drykk.
Kaffihátíð í Reykjanesbæ verður unnin í samvinnu við samtökin Betri Bæ, Kaffitár og fleiri aðila sem hafa áhuga á að taka þátt. Markmið kaffihátíðarinnar er að vekja athygli á kaffimenningunni en kaffi er önnur helsta neysluvaran í heiminum – fyrir utan olíu.
Í Reykjanesbæ státa menn sig af eigin kaffiframleiðslu hjá Kaffitári en öllum sem höndla með framleiðslu eða innflutning á kaffi verður jafnframt boðið að taka þátt.
Kaffi snertir okkur á ýmsan hátt og verður boðið upp á fjölbreytt tilboð um helgina hjá fyrirtækjum, veitinga- og skemmtistöðum. Sem dæmi má nefna tilboð í úrabúðinni “Viltu fylgjast með kaffitímanum”, kaffibrúna skó eða tilboð frá sólbaðsstofu “Viltu verða kaffibrúnn”. Einnig verður spáð í bolla og boðið upp á hina ýmsu kaffidrykki og rétti.

Gísli Jóhannson hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Kaffihátíðarinnar hjá Reykjanesbæ og mun hann sjá um að samræma framlag hvers og eins og kynna verkefnið út á við.

Víkurfréttir verða með blaðauka í tilefni af kaffihátíðinni. Þeir sem vilja koma að efni og auglýsingum geta haft samband við auglýsingadeild Víkurfrétta í síma 421 0000.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024