Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kaffi og afmælisterta hjá SBK í dag
Laugardagur 27. nóvember 2010 kl. 12:55

Kaffi og afmælisterta hjá SBK í dag

SBK býður Suðurnesjamönnum til afmælisveislu í dag þar sem boðið verður upp á kaffi og afmælistertu í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Grófinni 2-4 milli kl. 13 og 16. Allt er þetta í tilefni af 80 ára afmæli fyrirtækisins um þessar mundir. Eru allir velkomnir að samfagna eigendum SBK á þessum tímamótum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Víkurfréttum í þessari viku var blaðauki um SBK þar sem greint var frá ýmsu úr sögu fyrirtækisins og eins sagðar staðreyndir úr rekstri í dag. Að neðan er sagt frá fyrirtækinu í nokkrum orðum og hér má einnig nálgast blaðaukann á pdf-sniði.


Í Reykjanesbæ er staðsett elsta fólksflutningafyrirtæki á Íslandi, SBK ehf, sem áður hét Sérleyfisbílar Keflavíkur. Í upphafi var meginþáttur starfsemi SBK áætlunarferðir á Suðurnesjum og milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Síðustu ár hefur fyrirtækið vaxið hratt.

Upphaf fyrirtækisins er árið 1930 þegar Skúli Hallsson byrjar fólks- og vöruflutninga milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Árið 1942 kaupir Keflavíkurhreppur reksturinn af Skúla en Skúli gerist síðar forstjóri Áætlanabíla Keflavíkur sem í dag heita SBK ehf.

Í dag er fyrirtækið í eigu Kynnisferða sem leggur áherslu á að reksturinn verði áfram í óbreyttri mynd í höndum heimamanna. Hjá SBK er lögð áhersla á öryggi og þægindi farþeganna og því eru áætlana- og hópferðabílarnir búnir öryggisbeltum og loftkælingu. Þá eru bílar með stillanlegum sætum, geislaspilurum og DVD-tækjum og jafnvel ísskáp. Þá getur SBK boðið upp á bíla með salerni.

Auk þess að sjá um áætlanaferðir milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins þá hefur SBK mikla reynslu af skipulögðum ferðum fyrir hópa af öllu tagi. Svokallað „Dekur og djamm“ eru ævintýra- og óvissuferðir þar sem allt getur gerst og hentar jafnt fyrir stóra sem smáa hópa, starfsmannahópa, félagasamtök, almenna ferðamenn, eldri borgara og grunnskólanema. Hjá SBK er hægt að fá hópferðabíla í dagsferðir sem og lengri ferðalög þar sem ekið er um landið og gist á hótelum.

SBK hefur lagt á það áherslu að hafa reynda bílstjóra við stýrið en fyrirtækið hefur einnig á sínum snærum ferðaráðgjafa og leiðsögumenn.

„Hugmyndin með kaupum á SBK er að tengjast betur svæðinu, en í dag eru Kynnisferðir með töluverðan akstur á Reykjanesi og flugrútuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Framtíðarsýnin er að reka SBK áfram í óbreyttri mynd og að það verði heimamenn sem stjórni fyrirtækinu. Við erum ekki að tjalda til einnar nætur og ætlum að halda áfram að byggja upp samgöngur og ferðaþjónustu með sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum á Reykjanesi eins og SBK hefur gert undanfarin 80 ár,“ segir Einar Steinþórsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.